145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:29]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það munar um hvert einasta ár þegar kemur að uppbyggingu samgangna á Vestfjörðum. Ég og hv. þingmaður þekkjum vel hvaða plön voru í gangi varðandi fjárfestingaráætlunina sem var samþykkt á síðasta kjörtímabili og hefði Dýrafjarðargöngum átt að vera lokið 2018–2019 en nú blasir við að þeim seinki. Engin samgönguáætlun liggur fyrir og maður vill trúa því að það standist að farið verði í útboð á Dýrafjarðargöngum og uppbyggingu Dynjandisheiðar samhliða en það virðist vera þannig að það dragist a.m.k. fram til 2017. Þetta er bara svo dýrmætur tími. Það hefur sýnt sig að á sumrin þegar opið er á milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða þá hefur til dæmis atvinnulífið unnið mjög þétt saman varðandi laxeldi og ýmislegt annað því tengdu. Það sýnir okkur að við megum engan tíma missa við bæði uppbyggingu vega og því að ljúka vegum í Barðastrandarsýslu og við að fara í framkvæmdir við Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði. Þetta snýr að því að íbúar þessa svæðis hafi trú á framtíðinni, að atvinnulífið hafi trú á því að stjórnvöld ætli að koma með þeim í það verkefni að byggja upp og það þegar vissulega er uppgangur eins og núna á sunnanverðum Vestfjörðum, sem mun smita út frá sér hvað varðar ýmsa þjónustu í sjávarútvegi og við laxeldi til sunnanverðra Vestfjarða. Allt þetta leggst saman og þá verða stjórnvöld að fara að sýna á spilin: Hvað ætla þau að gera?

Ég kem kannski betur inn á flugvallamálin í seinna andsvari.