145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni í þessu. Ég held að landsmenn geri sér ekki alveg grein fyrir því hve litlu fjármagni er varið í samgöngur og hve lítill metnaður er hjá núverandi ríkisstjórn til að gera betur. Hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði í ræðu sinni um fjárlagafrumvarpið að ekki væri miklum fjármunum varið í samgöngur í landinu vegna þess að ríkið hefði þurft að greiða 33 milljarða vegna kjarasamninga. Mér fannst þetta frekar snautlegt. (VigH: Það eru 32 milljarðar.) — 32 milljarðar.

Hvenær er þá svigrúm til að efla samgöngur í landinu? Það verða alltaf einhverjar hækkanir í kjarasamningum og það verða alltaf vextir til að greiða af og annað. Þegar ríkisvaldið hendir frá sér gjaldstofnum og slær niður og hættir við að hafa (Forseti hringir.) auðlegðarskatt, orkuskatt og afsalar sér tekjum svo tugum (Forseti hringir.) milljarða skiptir þá sýnir það sig í því að menn geta hvorki staðið við samgönguáætlun né lagt fé í þennan málaflokk.