145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[00:27]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Það er ekki gert nógu vel í þeim mikilvæga málaflokki sem fangar og frelsissvipt fólk er. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að þegar til lengri tíma er litið er betrun vænni kostur en á móti kemur að hann kostnaðarsamari þegar við erum að byrja, þegar við erum ekki með stofnanir til að taka á móti þessu fólki.

Nú veit ég að til að mynda í Hollandi standa fangelsin nánast auð eftir að refsistefnu varðandi fíkniefni var breytt og meiri betrun hefur átt sér stað. Það virðist vera markaður fyrir því í Hollandi og fyrir hollensk fangelsi að taka við föngum annars staðar frá, mig minnir Danmörku eða Þýskalandi. Þá verður maður að velta því fyrir sér hvort það sé framtíðin, að við förum að senda fangana okkar út í stað þess að eyða 500 dögum af lífi fólks í bið eftir því að komast í fangelsi. Það er ekki mönnum bjóðandi. Það á ekki að dæma fólk til refsivistar ef refsivistin er ekki möguleg og ekki hægt að taka á móti fólki.

Mér finnst að við þurfum að endurskoða hugsunina á bak við fangelsi. Þetta er náttúrlega rosalega gamaldags stofnun sem er hugsuð fyrir allt annað samfélag þar sem það að vera útilokaður var skömm og fólk sætti oft og tíðum pyntingum. Einangrunarvist er náttúrlega form af pyntingum.

Til að tryggja rekstur fangelsis á Litla-Hrauni er metið að við þurfum 50 milljónir, einfaldlega til að tryggja starfsaðstöðu, vegna þess að það er engin bakvakt. Við erum að tala um að ef maður veikist kemur ekki maður í manns stað. Það þykir mér mjög alvarlegt og ég sé ekki neitt í þessum fjárlögum sem tryggir að komið verði til móts við það.