145. löggjafarþing — 55. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[01:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda áfram umræðu um lífeyrismál og heilbrigðismál. Þingmönnum hafa borist ótal póstar frá lífeyrisþegum. Við höfum hitt þá fyrir utan Alþingi og við höfum lesið skrif þeirra í blöðum. Það er augljóst að þessi mál brenna á lífeyrisþegum enda eru kjör ákveðinna lífeyrisþega mjög slök. Okkur hefur verið bent á að þeir lifi ekki á prósentum, þeir vilji tala um krónutölur. Ég ætla að gera það hér.

Ég ætla að taka dæmi um lífeyrisþega sem býr einn og er þar af leiðandi með heimilisuppbót og nýtur engra annarra tekna en greiðslna frá almannatryggingum. Slíkur einstaklingur hefur í dag fyrir skatt 225 þús. kr. Ríkisstjórnin leggur til 9,7% hækkun frá og með 1. janúar nk., sem þýðir að lífeyrisþeginn fær þá 246.900 kr. Fólk hefur bent á að þetta sé ekki í samræmi við kjarasamninga og launaþróun og að þetta sé ekki afturvirkt.

Við í minni hlutanum höfum verið að berjast fyrir afturvirkum greiðslum í fjáraukanum upp á 10,9% sem þýðir að greiðslan yrði frá og með 1. maí 2015 249.600 kr. Þarna munar ekkert svakalega miklu en þó tæpum 3 þús. kr. og fólk sem hefur svo lágar tekjur munar um það. Við tölum ekki um þegar við bætast átta mánuðir af hækkun á launum. Þar til viðbótar leggjum við til að frá og með 1. maí 2016 hækki bæturnar um 5,9% eins og kjarasamningar og verði þá 264.300 kr. Við erum því að leggja til hækkun sem verður um 18 þús. kr. hærri á mánuði frá og með 1. maí 2016 miðað við það sem stjórnarmeirihlutinn er að leggja til.

Svo við einföldum þetta aðeins þá erum við að leggja til eingreiðslu með þessari afturvirkni upp á 196.240 kr. og þegar við tökum saman eingreiðsluna og hækkunina miðað við núverandi bætur á næsta ári þá verður þetta í heildina hækkun upp á 608 þús. kr. Hækkunin sem stjórnarmeirihlutinn er að leggja til er í heildina upp á 262 þús. kr. Munurinn þarna á milli eru tæpar 350 þús. kr. í heildina. Það munar ekki miklu, hæstv. forseti, fyrir hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra en fyrir lífeyrisþega með eingöngu bætur frá almannatryggingum nemur þetta sem svarar einum og hálfum mánuði af greiðslum. Þetta yrði sem sagt í raun 13. mánuðurinn og hálfum mánuði betur sem munar á þessum tillögum.

Skal engan undra að lífeyrisþegum finnist þeir sviknir af hálfu núverandi ríkisstjórnar sem gaf stórkarlaleg loforð í kosningabaráttunni og krefjist þess að fá sambærilegar kjarabætur og launafólk, enda kveða lögin skýrt á um það að bætur eigi að hækka til samræmis við launavísitölu en þó aldrei minna en sem nemur vísitölu neysluverðs. Þetta var auðvitað gert til að tryggja að lögin kæmu í veg fyrir sjálfkrafa vaxandi ójöfnuð. Þetta á að tryggja að almannatryggingar haldi í við almenna launaþróun. Tillögur okkar ganga einmitt út á það að tekjur lífeyrisþega haldi í við launaþróun en stjórnarmeirihlutinn ætlar ekki að tryggja það. Hann ætlar að taka frá lífeyrisþegum að fá að njóta launaskriðsins og ekki er um afturvirkar greiðslur að ræða.

Munurinn á tillögum okkar í lífeyrismálum og tillögum stjórnarmeirihlutans nemur einum og hálfum mánaðartekjum lífeyrisþega sem eingöngu hefur greiðslu frá almannatryggingum á ársgrundvelli. Þetta er umtalsvert og með ólíkindum að eingöngu einn stjórnarliði sé búinn að lýsa yfir stuðningi við okkur þó að ég hafi ekki heyrt betur en hv. þm. Willum Þór Þórsson sé eitthvað að nálgast okkur í umræðunni fyrr í dag. Maður finnur líka að mörgum stjórnarliðum finnst vont að ríkisstjórnin sé ekki að mæta þessum kröfum heldur sé bara í þvergirðingshætti.

Það er nú nokkuð liðið á ræðutíma minn, hæstv. forseti, en ég vil vekja athygli á leiðara ritstjóra Læknablaðsins, Engilberts Sigurðssonar, sem er prófessor í geðlæknisfræði og yfirlæknir læknadeildar Háskóla Íslands og á geðsviði Landspítala. Hann nefnir ritstjórnargrein sína í nýjasta blaðinu „Að höggva undan sér fæturna“ og talar þar um meðferðina á Landspítala og lýsir yfir miklum áhyggjum af því að ekki sé verið að vinna af meiri festu að því að endurnýja húsakost spítalans og ekki sé verið að mæta aukinni þjónustuþörf á spítalanum með fjárveitingum.

Megintillögur okkar í minni hlutanum um hækkanir á greiðslum almannatrygginga og aukin framlög til heilbrigðiskerfisins njóta víðtæks stuðnings í samfélaginu. Fólk stendur með lífeyrisþegum og vill að Ísland einkennist af félagslegu réttlæti. Íslendingar eru sammála um að það eigi að forgangsraða skattfé í heilbrigðiskerfið. En ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar — látum vera þó hún hlusti ekki á okkur hér í minni hlutanum en það er alvarlegra þegar hæstv. forsætisráðherra og hans fólk skella skollaeyrum við vilja almennings, fólksins sem það hefur umboðið frá og stjórnar landinu fyrir. Það skal engan undra að við höfum mikinn kraft, sem erum að tala fyrir þeim góðu málum sem njóta mjög víðtæks stuðnings.