145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

störf þingsins.

[10:19]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég held að við getum öll verið sammála um að það er mikið starf að vera stjórnmálamaður og því fylgir mikil ábyrgð. Fólkið í landinu hefur treyst okkur til að fara með vald fyrir sína hönd og í sína þágu og ætlast að sjálfsögðu til að við vinnum af heilindum og einurð að heill og hamingju þjóðarinnar, að við höfum ætíð almannaheill að leiðarljósi og hagsmuni almennings sem viðmið um allt sem við segjum og gerum og ákveðum. Við sem störfum í stjórnmálum eigum einnig að sjálfsögðu að halda í heiðri þær dyggðir og þau gildi sem sameina fólk, byggja upp traust, stuðla að framförum og lausnum og auka lífsgæðin í landinu, virðingu, heiðarleika, auðmýkt og ekki síst umburðarlyndi. Það felst meðal annars í því að hafa skilning á þeim ólíku viðhorfum og þeirri ólíku sýn sem við höfum á hin margvíslegu verkefni sem við glímum við dagsdaglega. Allt eru þetta augljós sannindi ábyrgum foreldrum sem vilja ala upp heilsteypta og hamingjusama einstaklinga og senda þá vel nestaða út í lífið. Hvers vegna í ósköpunum skyldi það sama ekki eiga við í þessu húsi?

Ég hef margoft hvatt til þess í ræðum mínum á Alþingi að samráð verði stóraukið milli ríkisstjórnar, Alþingis, sveitarfélaga, atvinnulífsins, launþegasamtaka, fjármálageirans, fræðasamfélagsins og alls konar samtaka í þjóðfélaginu um langtímamarkmið okkar sem í þessu landi búum, hvernig við aukum lífsgæði fólksins og fjölgum tækifærum fyrir alla. Um það á pólitík að snúast og ekkert annað. Ég hika ekki við að fullyrða að ef eftir mínum orðum hefði verið tekið og farið værum við ekki í þeirri ömurlegu stöðu sem við erum í núna. Hver höndin upp á móti annarri, brigslyrði, ásakanir og skætingur, og mikilli orku er sóað í eintóm leiðindi sem er uppskrift að engum árangri.

Herra forseti. Ég hvet okkur enn og aftur til þess að axla nú ábyrgð sem almenningur í þessu landi fól okkur, slíðra sverðin, snúa bökum saman, leysa þau vandamál sem við okkur blasa í sem víðtækastri sátt. Ég skora á ríkisstjórnina að endurskoða hug sinn í málefnum aldraðra og öryrkja hvað varðar afturvirka kjarabót.