145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:00]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Sú sena sem átti sér stað hér áðan er dálítið afhjúpandi fyrir stöðu þessa máls. Við erum búin að vera að reyna að berja á ríkisstjórninni að hækka framlög til heilbrigðismála og hækka framlög til eldri borgara og öryrkja þannig að þeir fái betri kjör. Okkur er svarað með því að við höfum gert hræðilega hluti á síðasta kjörtímabili og þess vegna séu menn bara stikkfrí í umræðunni núna.

Á síðasta kjörtímabili stóðum við frammi fyrir ömurlegu hlutskipti, vinstri stjórnin, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin. Við stóðum frammi fyrir fordæmalausu ástandi sem var það að reyna að loka 216 milljarða kr. fjárlagagati. Það er töluvert. Það er, ef ég man rétt, eitthvað um þriðjungur af fjárlögum núna. Það er stórt gat og gríðarlega erfitt verkefni og því miður þurfti að draga saman víða til að ná því. En eitt var þó markmiðið og það var að við mundum tryggja og reyna að verja eftir bestu getu velferðarkerfið okkar og heilbrigðiskerfið. Það var markmiðið þannig að niðurskurðarhlutfallið á þá liði var lægra en á aðra liði og við það stóðum við og náðum svona nokkurn veginn að halda því við. En það breytir ekki því að við þurftum að skera niður á spítalanum og settar voru inn tímabundnar skerðingar fyrir lífeyrisþega. Það þótti okkur erfitt verk, það var gríðarlega erfitt fyrir okkur að gera það en það var nauðsynlegt, því miður. En hugsunin var alltaf sú að um leið og hagur vænkaðist mundum við snúa því við, þ.e. þá mundu þeir liðir fyrst fá leiðréttingar í fjárlögum.

Við erum dálítið svekkt yfir því að hafa stritað í fjögur ár við að reyna að koma okkur upp fyrir núllið, og það tókst á árinu 2013 þannig að við skiluðum ágætisbúi til núverandi stjórnvalda, vegna þess að í staðinn fyrir að beina sjónum sínum að heilbrigðiskerfinu með nægjanlegum hætti — ég ætla ekki að segja að menn hafi ekki gert neitt, það hafa einhverjar hækkanir orðið en því miður ekki nægjanlegar til að vinna upp t.d. biðlista fyrir kjaradeilur og annað slíkt sem þar hafa átt sér stað og orðið til — og í staðinn fyrir að horfa til lífeyrisþeganna og reyna að halda áfram að hækka grunnlífeyrinn ákveður núverandi ríkisstjórn að afsala sér tekjum af veiðigjöldum og auðlegðarskatti o.s.frv. Stjórnarliðar sögðu það bara hreint út að það væri þeirra pólitík og að það væri það sem þau tryðu að væri rétt og væri mesta forgangsmál þeirra. Gott og vel.

En það er sú forgangsröðun sem við erum að mótmæla. Við erum ekki að mótmæla því að við séum að komast út úr erfiðum tímum. Það tóku allir á. Öryrkjar og eldri borgarar tóku á, eins og öll þjóðin, til að loka þessu fjárlagagati til að koma okkur úr þeirri stöðu að við vorum hér með 18,6% verðbólgu. Hún fór niður í rúm 4%. Við vorum með stýrivexti upp á 18% og þeir fóru niður í rúmlega 6%, og þannig mætti lengi telja. Við vorum með gríðarhátt skuldatryggingaálag og engir vildu eiga við okkur viðskipti. Það var sú mynd sem blasti við okkur og mér finnst menn ansi fljótir að gleyma — eða kannski hafa þeir ekki gleymt neinu, það hentar þeim kannski ekki að minnast á þetta í samhenginu, heldur hentar þeim betur að koma hingað og góla hærra en bjallan þegar hún glymur sem hæst yfir okkur, um að við höfum gert hroðalega hluti á síðasta kjörtímabili.

Ég er ekki stolt af öllu sem við þurftum að gera en ég er stolt af þeim heildarárangri sem við náðum og við það stend ég. Ég er stolt af þeim heildarárangri sem náðist sem er að við komumst upp í núllið og komumst réttum megin við það. Mér finnst illa farið með þann árangur. Það er það sem við gagnrýnum harðast hér.

Virðulegi forseti. Nú langar mig aðeins að tala um málefni eldri borgara og öryrkja og segja frá því hvers vegna við stöndum í þessum slag hér. Þegar við samfylkingarmenn fórum í félagsmálaráðuneytið 2007 var það okkar sýn að ráðast þyrfti í gríðarlega hækkun á grunnlífeyri vegna þess að grunnlífeyririnn var mjög lágur á þeim tíma. Hann var 95 þús. kr. árið 2006 hjá þeim sem voru í sambúð og 119 þús. kr. hjá þeim sem bjuggu einir. Það gefur augaleið að á þess tíma verðlagi var það gríðarlega lág upphæð og töluvert undir lágmarkslaunum þess tíma. Þess vegna var ráðist í að gera breytingar og á milli áranna 2008 og 2009 varð 30% hækkun á grunnlífeyri. Það var gert vegna þess að við jafnaðarmenn trúum því að það sé okkar verkefni að tryggja þessum hópum mannsæmandi lífskjör, en ekki að búa til einhverja undarlega hvata inn í þetta kerfi sem hæstv. fjármálaráðherra hefur talað fyrir. Það á vissulega að búa til stuðning fyrir þá sem einhvern veginn hafa dottið út úr samfélaginu en gætu sinnt störfum með stuðningi. En það á ekki að gera það með þeim hætti að öllum hópnum sé haldið niðri til að reyna að ná einhverjum örfáum út úr kerfinu. Ég hef ekki trú á þeirri nálgun og því höfum við mótmælt hér.

Síðan náðum við sem betur fer að hækka aftur grunnlífeyrinn árið 2011. Það sem náðist hins vegar ekki að gera er að það var sólarlagsákvæði á skerðingarmörkum sem gengu til baka í lok árs 2013 en við studdum tillögu þessarar ríkisstjórnar árið 2013 um að skerðingar hæfust með ákveðnum hætti hjá þeim sem væru með atvinnutekjur, ég ætla ekki að fara út í tækniatriðin hér. Einnig ákvað þessi ríkisstjórn að láta það ganga til baka að þeir sem væru með lífeyri með 300 þús. kr. og yfir fengju skerðingar á grunnlífeyrinn, við studdum það líka. Við töldum þar og þá að menn væru að stíga þau skref að lyfta kjörum eldri borgara og öryrkja sem fundu svo sannarlega fyrir því að hér fór allt á hliðina.

Annað sem ég verð að nefna varðar heilbrigðismálin, þ.e. af hverju menn eru ekki tilbúnir að hlusta á forustufólk spítalans sem kemur og segir: Okkur vantar 3 milljarða bara til að geta haldið í horfinu. Það fær þau svör að ef það biðji um 3 milljarða og fái þá fari það bara að gera meiri kröfur um að fá eitthvað meira, eins og þetta sé bara heimtufrekja. En auðvitað er það það ekki. Við erum að koma út úr erfiðum tímum, eftir hrun þar sem taka þurfti á í ríkisfjármálum. Við erum að sigla út úr erfiðum tímum út af kjaradeilum hjá heilbrigðisstarfsmönnum sem valdið hafa því að það eru þrengingar og biðlistar á spítölum sem vinna þarf upp. Það eru öll ósköpin og ég tel mikilvægt að við hlustum á það.

Að lokum vil ég segja að það er sama hversu lengi við tökumst á um það hér hver gerði hvað 1989, 2005, 2009, 2012, það breytir ekki þeirri staðreynd að þúsundir Íslendinga lifa á um 200 þús. kr. á mánuði eftir skatt. Ég vil í stað þess að standa í þessu karpi að við spyrjum okkur frekar: Erum við sátt við það? Og ef svarið við þeirri spurningu er nei, tel ég að við ættum að taka höndum saman þverpólitískt og reyna að vinna okkur út úr þeirri stöðu. Það er ekkert sem segir að við getum ekki sameiginlega gert einhverja áætlun um með hvaða hætti við breytum þessu. Við í Samfylkingunni höfum lagt fram tillögu sem felur það í sér að allur lífeyrir verði hækkaður í sömu skrefum og lægstu laun. Ég hef heyrt nokkra framsóknarmenn taka undir slíkar hugmyndir hér í umræðunni, en menn eru samt einhvern veginn ekki til í að stíga skrefið og samþykkja eitthvað slíkt hér og það er það sem ég á erfitt með að skilja.

Þetta er það sem barátta okkar hér hefur snúist um, það er að í staðinn fyrir að forgangsraða í þá veru að menn fari að losa okkur við tekjur og létta skattbyrði og gjöldum af sjávarútvegi og þeim sem mest hafa, verði settir fjármunir í heilbrigðisgeirann og til eldri borgara og öryrkja.