145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Menn geta verið með allar þær yfirlýsingar sem þeir vilja en tölurnar tala sínu máli. Menn spyrja: Hvert fer batinn? Hann hefur farið í heilbrigðismál og lífeyristryggingarnar. Menn geta talað sig út úr því eins og þeir vilja en þetta eru bara staðreyndir sem liggja fyrir.

Nú skil ég það vel þegar hv. stjórnarandstaða segir oft að það sé ósanngjarnt að segja að þeir hafi sparað á síðasta kjörtímabili vegna þess að þeir þurftu að gera það. En það liggur líka fyrir hvernig forgangsraðað var í sparnaðinum. Þær tölur liggja fyrir. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem var þá fjármálaráðherra svaraði því í þingskjali. Hvar var fyrst og fremst tekið niður? Í heilbrigðismálum, bæði hlutfallslega miklu meira og auðvitað í tölum líka, það er stærsti geirinn. Þessar tölur liggja fyrir. Það er því holur hljómur í því þegar hv. þingmenn mæta núna og segjast ekki hugsa um neitt annað en heilbrigðismálin. (Forseti hringir.) Ég get alveg lofað ykkur því að forsvarsmenn Landspítalans komu ekki á síðasta kjörtímabili og sögðu: Endilega takið af okkur en bætið í utanríkismálin (Forseti hringir.) og umhverfismálin. Þeir sögðu það ekki. Ég lofa ykkur því.