145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:18]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér eru lagðar til auknar tekjur á grundvelli bætts skatteftirlits.

Ég vil segja það vegna orða hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar að það er ekki sérstök eftirspurn eftir leiðsögn Sjálfstæðisflokksins varðandi ábyrga fjármálastjórn eða ábyrgt utanumhald um ríkisfjármál. Það hefur ekki gefist sérstaklega vel og það eru í raun til átta bindi um það hvernig Sjálfstæðisflokknum hefur lánast að stýra ríkissjóði. Þannig að ég held að hv. þingmaður eigi nú bara að leyfa stjórnarandstöðunni að mæla fyrir sínum tillögum án þess að vera með (Gripið fram í.) eitthvert hnútukast úr því glerhúsi.

Varðandi skatteftirlit þá liggur fyrir að um að ræða gögn um eignir auðmanna sem eru faldar erlendis. Við vitum líka að hægt væri að fara í enn öflugra átak til að útrýma svartri atvinnustarfsemi eins og hægt er og einnig það sem hér hefur verið nefnt, þ.e. upplýsingar frá ríkisskattstjóra um (Forseti hringir.) skattsvikin og greiningu á þeim, að þar sé um að ræða 60–80 milljarða. Þannig að þetta er mjög varleg áætlun.