145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er margt hægt að segja um þær tekjuráðstafanir sem eru kynntar hér til sögunnar. Um þennan lið vil ég segja að það kemur á óvart að ekki sé sett miklu hærri tala þar. Við tókum þátt í umræðum hér allt sumarið 2012 um veiðigjöld og þá var okkur sagt að þegar kæmi fram á þennan tíma væri mátulegt að taka 20 milljarða. En hvers vegna er ekki farið upp í 20 milljarða? Eða 25? Það er alltaf talað um þennan „tekjustofn“ eins og það sé bara hægt að taka af honum eins og mann lystir. Hvers vegna fara fram með svona hóflega hækkun tekna ríkisins ef hægt er að taka eins og mann lystir? Þetta eru eiginlega stóru tíðindin í þessari tillögu. Það þarf ekki að taka 20, eins og áður var stefnt að, það þarf bara að taka 3. Það er náttúrlega búið að ráðstafa þeim. Enda eru allar þessar tillögur þannig að fyrst var farið yfir útgjaldaliðina og svo var reynt að skrapa eitthvað upp í þá.