145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir hvert orð hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar.

Ég ætla aðeins að benda á að meiri hluti fjárlaganefndar lagði til nýjar 400 millj. kr. í stálþil hafna víða um landið sem þarfnast algjörlega endurnýjunar lífdaga. 400 millj. kr. leggjum við til til þess að halda áfram viðgerð og uppbyggingu flugvalla á landsbyggðinni og ekki veitir víst af því og 200 millj. kr. viðbót í fjarskiptasjóð sem á að hafa það hlutverk að ljósleiðaravæða landið sem er eitt það mesta framfaraspor sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir.

Að lokum, virðulegi forseti, eru það kannski litlu tölurnar sem skipta mestu máli því að hér gerðum við tillögu eftir heimsókn rúmlega 40 sveitarfélaga — það eru brigsl um að við séum að hygla vinum okkar en fjárlaganefnd tók á móti svona mörgum sveitarfélögum. Hér fara til sjóvarnargarða 40 millj. kr. sem áttu að fara til styrkingar sjóvarnargarðsins í Vík (Forseti hringir.) en eins og allir vita þá splundraðist hann í óveðrinu sem gekk yfir landið þannig að þarna er alla vega trygg einhver fjármögnun til lagfæringar.