145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:10]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur að við eigum að hlusta á fólkið sem vinnur verkin. Þess vegna hef ég tilhneigingu til þess að hlusta á starfsmenn fjármálaráðuneytisins sem reikna út launabætur fyrir allar stofnanir á Íslandi (Gripið fram í: Rétt.) — allar stofnanir á Íslandi. Ég ætla ekki að gera minna úr þeim starfsmönnum en starfsmönnum Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Að öðru leyti finnast mér þær tillögur sem hér eru settar fram af hálfu minni hlutans lykta af popúlisma (SSv: Það eru tillögur forstjóra Landspítalans.) og tek ekki undir þær af þeim sökum. Og þó að þær séu komnar frá forstjóra spítalans tek ég ekki undir þær vegna þess (Gripið fram í.) að búið er að semja um það við þennan spítala og farið hefur fram verulega góð úttekt á starfsemi hans og fjárþörf og því fagna ég. En ég segi nei við þessum tillögum.