145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

dagskrá næsta fundar.

[11:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er venja þegar kemur að þinglokum fyrir jól og að vori að þá eru tekin til afgreiðslu ýmis mál sem fengið hafa ítarlega umfjöllun yfir veturinn. Svo er um það mál sem hér liggur fyrir.

Ég rakti hér áðan hvernig málsmeðferð var síðasta vetur og hvernig hún hefur verið í haust varðandi þetta mál. Það er á allan hátt tilbúið til afgreiðslu. Auðvitað eru skiptar skoðanir um það en ítarleg umræða hefur átt sér stað og á vettvangi nefndar, hér í þingsal og annars staðar, þannig að okkur er ekkert að vanbúnaði að ganga til atkvæða um málið.

Leikaraskapurinn sem hér er hafður uppi og hártoganir í sambandi við samkomulag sem gert hefur verið um þetta mál breyta engu þar um og eru auðvitað bara þeim til hneisu sem að því standa. Það þarf ekki að koma á óvart að forusta Samfylkingar og Vinstri grænna (Forseti hringir.) skuli ganga fram með þessum hætti. En það er hins vegar áhugavert að velta fyrir sér hvernig Píratar, sem telja sig talsmenn nýrra viðhorfa (Forseti hringir.) og nýrra aðferða í stjórnmálum, hafa komið fram hér og leikið leikinn (Forseti hringir.) með hinum stjórnarandstöðuflokkunum í þessu eins og reyndar öðru.