145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[21:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir yfirgripsmikla og góða ræðu. Hún ræddi hér efnahagsþróun og forsendur og tók helstu atriði sem hafa áhrif í frumvarpinu og vék að tekjuskattinum og þeim breytingum sem þar eru. Sannarlega er meginmarkmið með þeim breytingum að auka ráðstöfunartekjur launþega og kaupmátt. Það er skýr tenging og kemur vel fram í frumvarpinu við kjarasamningana þar sem var lögð áhersla á að auka tekjur millitekjuhópa. Ég er sammála hv. þingmanni og það er í raun og veru búið að sýna fram á það að stígandi skattkerfi, þ.e. það sem menn kalla „progressive“, er tæki til jöfnunar. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Í svona sígandi hlutfallslegu kerfi er skattbyrðin í sjálfu sér minni á tekjuhærri einstaklingana. Hins vegar erum við ekki að falla frá þrepaskiptu kerfi. Eins og þetta er byggt upp blasir við að þetta ætti að ná tilætluðum árangri með auknum ráðstöfunartekjum og það er sannarlega það sem var stefnt að í tengslum við kjarasamninga. Til ítrekunar þá verður áfram þrepaskipt kerfi eftir tvö ár þótt þrepum verði fækkað um eitt. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að þessi stígandi áhrif fari út við það að fækka um eitt þrep?