145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[22:20]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, tekjujöfnunina ber á góma hér við þetta mál og ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta er hápólitískt mál. Þetta er aðalmálið til umfjöllunar hér á þingi. Menn halda að fjárlögin séu merkileg, en þetta er einmitt aðalmálið. Þetta eru tekjurnar. Tekjujöfnun er hugtak sem vinstri menn hafa alltaf notað til þess í raun að fegra skattheimtu, fegra endurúthlutun stjórnmálamanna á fjármunum almennings og launþega. Það er nú bara þannig.

Það er vert að hafa í huga að tekjujöfnun fer fram út um allt samfélagið. Þegar stjórnmálamenn ákveða að bjóða upp á ókeypis nám í lögfræði og tannlækningum, þá er það tekjujöfnun og þannig mætti lengi telja.

Hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að hér sé verið að ganga á svig við tekjujöfnunarmarkmiðið. Hún talaði um að hér væri verið að fletja út tekjuskattskerfið. En ég vil árétta að það er ekki verið að fækka skattþrepunum niður í eitt, þau verða áfram tvö. Ég er ekki að segja að ég sé sammála því en mig langar að spyrja hana aðeins út í þau fjárhæðarmörk sem hér er stefnt að.

Ef hv. þingmaður vill hafa mörg skattþrep bið ég hana að upplýsa okkur aðeins um afstöðu sína til þess. Nú eru efri mörkin til dæmis miðuð við 836 þús. kr. sem einhver mundi telja háar tekjur, fara niður í 700 og 770 þús. kr. — hvernig vill hv. þingmaður stilla þetta af?