145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[22:25]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, við verðum sjálfsagt ekki sammála um að hlutverk skattkerfisins eigi að vera tekjujöfnun. Ég held að aðrar leiðir séu miklu betri og áhrifaríkari vilji menn á annað borð hafa það að markmiði, þess vegna benti ég einmitt á menntun og annað sem boðið er upp á. Mér finnst hins vegar alveg ótækt annað en menn hafi á því skoðun, ef menn vilja hafa hátekjuskatt, hvort 836 þús. kr. séu háar tekjur eða svo háar að það réttlæti sérstakan hátekjuskatt. Ég er að minnsta kosti þeirra skoðunar að svo sé ekki heldur þurfi hátekjuskattur á Íslandi að vera töluvert hærri en það. Mér líður sjálfri ekkert sérstaklega vel með að efra þrepið muni í framtíðinni miðast við 700 þús. kr., en þess ber þó að geta að skattur í neðra þrepi lækkar þannig að tekjuskatturinn í heild, nettó ætti að lækka.

Úr einu í annað: Hv. þingmaður nefndi græna hagkerfið. Það rifjaðist upp fyrir mér af löngum fundi í gær, næturfundi, þar sem fjárlögin voru afgreidd, að í breytingartillögu stjórnarandstöðunnar voru lögð til útgjöld upp á að mig minnir 200 milljónir, kannski 150 milljónir, í það sem kallað var græna hagkerfið eða eitthvað því um líkt. Nei, það var verulega há fjárhæð, það var hærra en það sem ég heyri hér utan úr sal. En ég velti því fyrir mér í því sambandi hvort hv. þingmaður hefur tillögur að skattlagningu í þessum flokki, hvort hún hefur velt fyrir sér kolefnisskattinum, hvort hún telji eðlilegt að hann sé til dæmis eingöngu lagður á bifreiðar í dag þegar í ljós hefur komið að losun útblásturs, heildarlosun, frá bifreiðum er bara 4%, en stærstur hlutur af losun koltvísýrings (Forseti hringir.) er frá framleiðslulandi. Kæmi til greina af hálfu hv. þingmanns að dreifa þessari skattbyrði með sanngjarnari hætti?