145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[22:27]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hef ég skoðun á því hvort 836 þús. kr. séu há laun? Mér finnst það ansi há laun, já, sérstaklega þar sem öryrkjum og öldruðum, sem við ræddum talsvert hér í gær, er boðið upp á tekjur undir 200 þús. kr. sem eru 1/4 af þeirri upphæð. Mér finnst 836 þús. kr. alveg ágætlega há laun.

Hv. þingmaður vitnaði til græna hagkerfisins. Við lögðum til 70 milljónir í það verkefni í gær. Ég var að fletta því upp, hv. þingmaður, og minnir mig að það sé sú tala sem áður var tekin úr þeim potti.

Hv. þingmaður nefnir hér kolefnisgjald en í kjölfar loftslagsráðstefnunnar í París vakna ýmsar spurningar um framhaldið. Hvernig ætlum við að fara að því að uppfylla þau markmið sem þar er búið að setja niður á blað til þess að þau verði ekki bara orð á blaði? Hluti af því er kolefnisgjald. Hluti af því sem við þurfum að fara að hugsa — ég bara hafði ekki tíma hér til að koma inn á það í ræðu minni — og tengist því hvernig við höfum séð skattkerfið þróast, er það að fjármagnið er fyrir löngu orðið alþjóðlegt, en skattkerfið er ekki alþjóðlegt. Það hefur valdið því að til eru það sem við köllum skattaskjól og það hefur valdið því að við erum að gera upplýsingaskiptasamninga til að koma í veg fyrir að fólk geti sett peninga í skattaskjól. En ég held að í umræðunni á næstu árum eigi eftir að verða miklu meiri þungi á einhvers konar samstarf um skattlagningu.

Við sjáum samkomulag tíu ríkja um svokallaðan millifærsluskatt eða „transfer tax“ innan Evrópu. Þetta eigum við eftir að horfa á og meðal annars í tengslum við það að viðfangsefnin sem er við að eiga núna, eins og loftslagsbreytingar, eins og þjóðflutningar, kalla á miklu meira samstarf ríkja í skattamálum. Ég held að við ættum líka að taka þá umræðu hvert við viljum stefna í þeim málum. Við höfum verið að gera fleiri upplýsingaskiptasamninga. Við höfum verið að bregðast svolítið við þessari þróun. Þetta er raunverulegt viðfangsefni á allra næstu árum.