145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

skattar og gjöld.

373. mál
[18:51]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu seinna andsvari hv. þingmanns þá örlaði ekki á skilningi á hugtakinu „verðbætur“ og skilningi á söluhagnaði af fasteignum. Söluhagnaður af fasteignum kemur til vegna verðrýrnunar íslenskrar krónu.

Það er annað dæmi sem ég ætla að taka sem er kannski miklu svakalegra og það er að ef einhver kaupir sér sumarbústað og á hann í svo sem eins og 30 ár þá er um það bil 20% af söluverðinu skattur, ekki vegna þess að sumarbústaðurinn hafi hækkað í verði að raunvirði heldur vegna þess að hann hefur hækkað vegna verðbólgu.

Það getur vel verið að það sé best að færa allar fasteignir undir sumarbústaðaregluna þannig að einstaklingar þurfi að greiða skatt af eignum sínum þegar þeir selja þær jafnvel þó um raunhækkun hafi ekki verið að ræða. Verðbreytingastuðullinn sem hér var í brúki frá 1972 til aldamóta lagaði þetta að nokkru leyti. Að öðru leyti held ég að ég hafi svarað því sem um var spurt og reynt að koma mönnum í skilning um annað, en ég læt máli mínu lokið að sinni.