145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

sala fasteigna og skipa.

376. mál
[19:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég treysti mér til að taka undir síðustu fullyrðingu hv. þingmanns en þó efa ég ekki að honum hefði orðið vel ágengt á því sviði.

Hér á Alþingi sitja margir snillingar í viðskiptum. Ég er ekki einn af þeim. Ég hlusta mjög grannt eftir því sem hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason segir um þau efni. Allt sem hann segir um loftferðir lít ég á sem eins konar lagafyrirmæli vegna þess að hann er sá maður sem hér situr á þinginu sem mest veit um það. En við erum ekki komin í það enn þá.

Ég ætla samt að leyfa mér að vera annarrar skoðunar en hann um að það sé sjálfgefið að menn megi ráða sér aðstoðarmenn til að sinna hinu og þessu sem tengist fasteignaviðskiptum ef það er undir umsjón fasteignasala, einmitt vegna þess hvernig 4. gr. er orðuð. Þar er nánast verið að segja hvers konar aðstoðarfólk menn mega ráða sér og það er skilgreint með tilteknum hætti. Og sú staðreynd að ekki er talað um aðstoðarmenn um fasteignaviðskiptin sjálf leiðir til þess að ekki er hægt að gagnálykta annað á grundvelli 4. gr. en að framkvæmdarvaldið hafi með eindregnum vilja ákveðið að hafa þá heimild ekki inni. Það er mín skoðun og ég verð að komast líka að þeirri niðurstöðu miðað við orðanna hljóðan í þeim lagagreinum sem ég hef vísað til, að þá megi mjög efast um að framkvæmdarvaldið hafi heimild til þess samkvæmt lögum.

Ég tel í öllu falli að hér sé búið í fyrsta lagi að tryggja neytendavernd. Í öðru lagi að þeir menn sem hafa tapað vinnunni út af lagasetningunni í vor séu komnir í skjól með þessu. (Forseti hringir.) Svo get ég tekið undir með hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni um að það sé hugsanlega eitthvað fleira sem tengist þessu máli sem koma þarf til skoðunar. (Forseti hringir.) En með þessu frumvarpi höfum við alla vega eytt þeim vanda sem brýnastur er.