145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

húsnæðisbætur.

407. mál
[20:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra innilega til hamingju með að vera komin með þessi fjögur mál inn í þingið. Það hefði mátt gerast fyrr að mínu mati en það er sannarlega ánægjuefni og ástæða til að samgleðjast okkur öllum yfir því.

Nú er það svo að það eru mjög ítarlegar umsagnir fjármálaráðuneytisins með þessum frumvörpum. Þar bendir ráðuneytið á fjóra þætti sem það dregur saman sem gagnrýni. Í fyrsta lagi telja þeir að ekki sé búið að gera viðhlítandi samkomulag varðandi breytingar á fjárstreymi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til fjármögnunar á núverandi húsaleigubótakerfi og ganga þurfi í það. Svo telja þeir að verið sé að gera breytingar þar sem fólk þurfi að fara á tvö stjórnsýslustig til að fá annars vegar húsnæðisbætur og hins vegar sérstakar. Þeir gagnrýna það. Það er vissulega dálítið vandasamt. Í þriðja lagi telja þeir að aukning á niðurgreiðslu húsaleigu verði hlutfallslega meiri eftir því sem tekjur heimila eru hærri. Það sé ekki í samræmi við markmið frumvarpsins. Svo telja þeir í fjórða lagi að sá munur sé ekki til staðar á greiðslum úr húsaleigubótakerfinu og vaxtabótakerfinu sem látið er í veðri vaka. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hverju hún svari þessari gagnrýni fjármálaráðuneytisins.