145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fullgilding bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (OPCAT).

6. mál
[22:43]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er mjög gott að okkur sé að lánast að ljúka þessu mikilvæga máli hér á Alþingi. Það er mörgum að þakka. Mörg mannréttindasamtök hafa beitt sér fyrir því hérlendis að það verði fullgilt. Mér er það einstaklega ljúft að hafa fengið að taka þátt í þessu langa og stranga ferli. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim sem hafa haft frumkvæði að því að þrýsta á þetta mál. Ég vil þakka aðstoðarmanni okkar Pírata, Aðalheiði Ámundadóttur, sérstaklega fyrir vinnu hennar í kringum þetta þingmál. Þess ber að geta að þó að ég hafi flutt málið og unnið eins og ég gat að því að það yrði klárað hef ég fundið fyrir gríðarlega miklum vilja hér á Alþingi til að fullgilda þessa mikilvægu bókun. Þar hef ég fundið fyrir velvilja frá fólki úr öllum flokkum enda hafa hvorki meira né minna en þrjár nefndir Alþingis lýst yfir stuðningi við að klára fullgildinguna. Ég veit að það er beðið eftir því í innanríkisráðuneytinu að við á Alþingi klárum þetta og mér finnst góður bragur að því að Alþingi veiti þannig aðhald að það þrýsti á að við stöndum við alþjóðlegar skuldbindingar okkar.

Ég vil fagna þeirri samstöðu sem ég hef fundið fyrir og þann stuðning og skilning sem hefur komið fram hér á Alþingi gagnvart málinu. Ég vona innilega að okkur takist að búa til þannig ramma utan um eftirlitið að það verði til þess að við getum hlúð að þeim sem hafa verið frelsissviptir á þann máta að við þurfum aldrei að standa frammi fyrir því að viðurkenna að nokkur maður hafi verið pyndaður undir þannig kringumstæðum.