145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

fullgilding bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (OPCAT).

6. mál
[22:48]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil að sjálfsögðu þakka fyrrverandi hv. formanni utanríkismálanefndar, hv. þm. Birgi Ármannssyni, fyrir þá vinnu sem var unnin meðan hann var formaður nefndarinnar. Þetta var mjög vel sett áfram og sent til umsagnar til nefnda sem skipta máli á Alþingi hvað þetta varðar, hv. allsherjar- og menntamálanefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem einróma var lagt til að bókunin yrði fullgild.

Ég vil jafnframt þakka þeim aðila sem lagði málið fyrst fram á Alþingi, hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, en við höfum verið að skipta á milli okkar verkum.

Fyrir mér er langmikilvægast í svona máli að við séum öll sammála um að það þurfi að framkvæma vel. Þess vegna fannst mér mjög gott að heyra hv. þingmann minnast á mikilvægi þess að við höldum áfram að veita þessum tiltekna málaflokki, sem og væntanlega mjög mörgum öðrum, gott aðhald. Ég vona að við munum geta kallað eftir, þegar búið er að setja framkvæmdina í gang, einhvers konar skýrslu eða fengið upplýsingar um framkvæmd málsins því það er mjög mikilvægt að þetta sé gert rétt, vel og hratt. Ég vil bara enn og aftur þakka fyrir.