145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi RÚV þá lít ég svo á að það svar sem við fengum frá fjármálaráðuneytinu staðfesti að ekki hafi verið talin þörf á því að fara lengra með málið og ég geri ráð fyrir því að fjármálaráðherra sé meðvitaður um það svar sem sent var fjárlaganefnd.

Ég tel að við getum hengt okkur í það að ráðherranefndin hafi átt að svara þessu en ekki bara fjármálaráðherra, en hann ber ábyrgð á fjármálum ríkisins og ef hann hefur samþykkt að þetta dygði til þá geri ég ráð fyrir því að Ríkisútvarpið geri það líka, því að ekki var kallað eftir neinu meiru. Allan þennan tíma var ekki kallað eftir því að Ríkisútvarpið legði fram önnur gögn eða þá að ráðherranefndin léti svo lítið að koma saman og taka málið fyrir. Er það ekki líka óeðlilegt, hv. þingmaður? Ef ráðherranefndin sér ekki ástæðu til að gera það, megum við þá ekki draga þá ályktun að hún telji ekki þörf á því? Við verðum alla vega að setja þetta í eitthvert samhengi.

Varðandi tímabundna skatta eða ekki, þá er það svo að á hverjum tíma þurfum við að endurmeta stöðuna. Nákvæmlega eins og hv. þingmaður hefur tekist á við, frá því að hann kom hér í ríkisstjórn aftur, þá er sífellt verið að endurmeta stöðuna, hvort hann og hans fólk telur þörf á þessum skatttekjum eða ekki, eða einhverju slíku, og við erum að rísa upp úr hruninu á þessum tíma, þegar þessir skattar eru lagðir á, og töldum ekki þörf á auknum skatttekjum af þessum toga.

Eins og kom fram í andsvari hjá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur áðan var alveg ljóst að auðlegðarskatturinn var eitthvað sem við þurftum að lagfæra til að þeir aðilar sem máttu kannski síst við því að lenda í því — áttu hreinar eignir, fullorðið fólk, sem átti ekkert annað — væru ekki þar undir með þeim hætti sem þar á við o.s.frv. En tímabundinn skatt getur þurft að framlengja hvenær sem er og það getur líka þurft að gerast í tíð hv. formanns núna.