145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. síðasta ríkisstjórn var við völd í fjögur ár og hafði alla möguleika á því að lagfæra þennan skatt en gerði það ekki. Það voru strax mótmæli, það voru málaferli og í dómsorði sagði: Hér er um tímabundinn skatt að ræða. Ástæðan fyrir því að menn fóru í mál var sú að menn töldu þetta ekki standast stjórnarskrá. Menn geta síðan túlkað það hvort það hafi staðist fyrir dómstólum, vegna þess að þetta var tímabundið. Það er flest sem bendir til þess. Í þeim löndum sem við berum okkur saman við eru ekki svona skattar vegna þess að það er talið að þeir standist ekki stjórnarskrá viðkomandi landa. Hv. síðasta ríkisstjórn hafði alla möguleika á að lagfæra þetta en gerði það ekki. Maður getur ekki skilið þetta öðruvísi en svo að þegar vinstri grænir segja að skattur sé tímabundinn, og það er kynnt sem slíkt, þá hafi það enga merkingu.

Það er áhugavert að heyra hvernig hv. þingmaður túlkar samþykktir Alþingis. Nú liggur fyrir að ráðherranefnd um ríkisfjármál átti að samþykkja þessi skilyrði, gerði það ekki og menn geta ekki haft allar skoðanir á því. Ég veit ekkert af hverju það var ekki gert, hvort þeir ræddu það, ég veit ekkert um það, en þetta var það sem meiri hluti Alþingis samþykkti. Og hv. þingmaður er raunar að segja að það skipti engu máli hvað þingið samþykkir. Það er ekki hægt að túlka orð hv. þingmanns með öðrum hætti. Og mér þykir það, burt séð frá efni máls, langalvarlegast.

Við getum haft allar skoðanir á RÚV og öllum öðrum ríkisstofnunum og ríkisfjármálunum en að hv. þingmaður komi hér og segi: Já, já, þetta er það sem við samþykktum, þetta er það sem Alþingi samþykkti, en ég er algerlega tilbúin til að líta fram hjá því. Það er mjög alvarlegt og ég hvet hv. þingmann til að endurskoða þá afstöðu sína til löggjafarvaldsins.