145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þessar tölur er þó það að athuga að almennt eru framlög verðbætt milli ára og mér heyrist miðað við samanburðinn framlögin varla halda í við verðbætur.

Það sem er síðan alveg rétt hjá hæstv. ráðherra er að það kann að vera að það sé víðtækari samstaða en oft virðist á yfirborðinu um málefni Ríkisútvarpsins. Ég hef rætt við ráðherrann leiðir til þess að verja fréttastofuna árásum svo að hún geti starfað þannig að hlutleysi hennar sé líka vottað með tryggum hætti. Það er hægt að fá systurstofnanir í nágrannalöndum til að standa með henni vörð um hlutleysið, stórar deildir í Danmarks Radio og BBC sem sjá um að votta hlutleysi. Þær gætu sem hægast veitt okkur leiðsögn í því efni og jafnvel sinnt því fyrir okkur, þannig að enginn þurfi að óttast það.

Þá er eftir menningarhlutverkið sem er ómetanlegt. Ég verð að segja það hér að ég met vilja hæstv. ráðherra sem hefur komið fram í orðum hans um að standa að baki Ríkisútvarpinu. Ég vil segja að miðjan hefur horfið í íslenskum stjórnmálum í kjölfar hruns. Ein birtingarmynd þess er að Ríkisútvarpið sem átti vini víða í öllum stjórnmálaflokkum er nú óþarflega vinafátt á vettvangi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks.

Ég minni á hið góða viðtal við Matthías Johannessen í Víðsjá nýlega, sem ég vitnaði til í umræðu um Ríkisútvarpið fyrr í vikunni. Þar rakti hann mikilvægi Ríkisútvarpsins fyrir íslenska menningu og fyrir íslenska þjóð í fortíð, nútíð og framtíð. Ég vil hvetja borgaralega þenkjandi stjórnmálamenn á Íslandi í Sjálfstæðisflokki, í Framsóknarflokki til að fara nú að taka að hjarta sér þau skilaboð og standa vörð um og sækja fram fyrir þessa mikilvægu menningarstofnun þjóðarinnar.