145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra upplýsingarnar en þær breyta því ekki að Ríkisútvarpið hefur gert áætlanir út frá þeim fyrirætlunum sem voru kynntar. Það er ekki boðleg staða fyrir nokkra stofnun að vera í slíkri óvissu að vera með fyrirheit um tilteknar fjárhæðir, vinna áætlanir samkvæmt þeim fjárhæðum sem síðan standast ekki. Það verður að vera meiri fyrirsjáanleiki í fjárveitingum almennt til stofnana. Það á ekki síst við um almannafjölmiðilinn, getum við sagt, sem þarf af sérstökum ástæðum sem við fórum vel yfir hér í 2. umr. fjárlaga að vera óháðari fjárveitingavaldinu en hefðbundnar ríkisstofnanir.

Þetta er umræða sem við höfum margoft tekið í þessum sal og niðurstaðan hefur verið að það sé eðlilegt, t.d. þegar við greiddum atkvæði um frumvarp um Ríkisútvarpið 2007 og aftur 2013. Það er eðlilegt að fjölmiðill í almannaeigu hafi meira sjálfstæði gagnvart ríkisvaldinu en hefðbundnar stofnanir og þess vegna er mikilvægt að hafa sjálfstæðan tekjustofn.

Ég spyr hæstv. ráðherra á móti hvort hann telji ekki eðlilegt að útvarpsgjaldið standi til framtíðar undir starfsemi Ríkisútvarpsins. Mér finnst bara ekki rétt vinnulag að við séum á Alþingi að reifa einhverjar sérstakar dúsur til Ríkisútvarpsins. Ég er algjörlega ósammála þessu vinnulagi í kringum almannaútvarpið.

Er hæstv. ráðherra sammála mér? Ég fagna því líka að hann sé reiðubúinn að efna til meira þverpólitísks samráðs um Ríkisútvarpið og spyr hann hvort hann sé sammála því að það eigi ekki eingöngu að fara fram hér innan veggja Alþingis heldur líka úti í samfélaginu. Það er það sem Ríkisútvarpið hefur verið að gera, það hefur ferðast um landið, haldið útvarpsþing og rætt við fólkið í landinu sem er líka mikilvægur hluti af starfi Ríkisútvarpsins.