145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið þessu öðruvísi en þannig að þetta sé bara ræða í afmælinu mínu. Málflutningurinn var þannig. Ef einhver trúir því að við höfum sparað tugi milljarða með því að dæla endalausum peningum í þessa ESB-umsókn af því að annars hefðum við fengið viðskiptabann, ja, þá er engin kímnigáfa þar. Þetta var alveg stórskemmtilegt, hv. þingmaður. Auðvitað er það meinfyndið að halda því fram að ESB-umsóknin hafi sparað okkur peninga. Ég held að hv. þingmaður hafi staðfest það sem við vitum, hann er með mikið samviskubit.

Að sjálfsögðu var alveg ömurlegt, þó svo að ég viti að það var góður hugur hjá mörgum þingmönnum og vonandi öllum, að það skyldi vera farið í niðurskurð á þennan hátt. Það er algerlega ömurlegt að ákveðnar stofnanir, eftirlitsstofnanir, Jafnréttisstofa og Matvælastofnun og hvað það er, skyldu fara upp úr öllu valdi á meðan menn tóku niður heilbrigðismálin, eins og raun ber vitni. Það er líka ömurlegt að menn skyldu dæla í utanríkismálin og umhverfismálin á meðan sjúklingum var látið blæða. Það er alvarleiki málsins. En við skulum læra af þessu.

Hv. þingmaður er náttúrlega einn af þeim þingmönnum sem ég geri kröfur til. Þegar búið er að hækka framlögin til lífeyrisþega um 27 milljarða á ársbasis frá því að þessi ríkisstjórn tók við þá á hv. þingmaður að kannast við það. Þegar hv. þingmaður veit að framlögin til heilbrigðismála voru hækkuð fyrir þessa breytingartillögu um 32 milljarða, ætli það séu ekki 33 milljarðar, þá á hv. þingmaður að tala um þá hluti eins og þeir eru. Hv. þingmaður hefur meiri þekkingu á heilbrigðismálum en flestir hv. stjórnarandstæðingar og er ágætismaður og það er gott að menn hafi (Forseti hringir.) kímnigáfu þó að umræðuefnið sé alvarlegt, en þetta með ESB er það sem stendur upp úr í dag, að halda því fram af alvöru að það hafi sparað peninga er mjög fyndið.