145. löggjafarþing — 59. fundur,  19. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:02]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa talað um að það sé stór stund hér í dag þegar við afgreiðum nú breytingartillögur við 3. umr. sem fela það í sér að fjármunir frá erlendum kröfuhöfum koma inn til ríkissjóðs, bæði í formi fjármagns og eigna.

Þetta er dæmi um það þegar skynsemin sigrar óskynsemina. Þetta er ekki dæmi um vinstri eða hægri, þetta er dæmi um að skynsemin hefur sigrað óskynsemina. Óskynsemin fólst í þeim hugmyndum að taka risastórt gjaldeyrislán í útlöndum til að greiða erlendum hrægammasjóðum fjármagn sem færi úr landi. Skynsemin felst í því að erlendir hrægammasjóðir þurfa að láta af hendi eignir sínar og fjármagn sem við erum að taka inn í fjárlög fyrir árið 2016.

Fjárlög 2016 eru því fjárlögin þar sem skynsemin endanlega sigraði óskynsemina.