145. löggjafarþing — 64. fundur,  20. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að ræða tiltekið orðalag. Það sem kemur fram í viðtalinu er að ég er á móti fátækt yfir heildina, óháð því hvort við köllum fólk aumingja eða eitthvað annað. Ég er einfaldlega á móti fátækt.

Viðskiptablaðinu þykir fyrirsögnin auðvitað afskaplega áhugaverð vegna þess að það er væntanlega heldur hægri sinnað blað, en það sem ég útskýrði hins vegar í viðtalinu, að mínu mati með fullnægjandi hætti, er að ég tel það fyrst og fremst hagfræðilegt mál að jafna tekjur, hagfræðilegt mál að fólk sé í meginatriðum jafnt, að það sé jöfnuður í samfélaginu. Ég er jafnaðarmaður. Ég er það ekki á þeim forsendum að mér finnist það endilega vera réttlætisspurning. Það er hagfræðispurning líka. Fátækt kostar. Hún kostar mjög mikið, ekki bara fólkið sem er fátækt heldur samfélagið í heild með minni þátttöku fólks í hagkerfinu. Að sama skapi er ég á móti því að öryrkjar eða aldraðir eða nokkur hópur sé fátækur, hvað svo sem við köllum hvern og hversu stórir sem hóparnir eru. Ég er á móti því.

Stefna Pírata er til. Það er áhugavert að hv. þingmaður spyrji hvort við höfum ekki heldur stefnu í þessum málaflokki. Við höfum stefnu. Hún er með þeim eldri, hún er með þeim fyrstu sem við samþykktum. Hana má finna á vefsíðunni x.piratar.is þar sem maður getur flett upp velferðar- og félagsmálum. Ég verð að stikla á stóru vegna tímaskorts, en meðal þess sem kemur þar fram er að við viljum lögfesta lágmarksframfærsluviðmið. Þetta er með eldri stefnum Pírata. Allir eiga rétt á mannsæmandi tekjum í auðugu landi. Standa þarf vörð um atvinnufrelsið og að allir einstaklingar geti nýtt sér þá þekkingu sem viðkomandi býr yfir sér til atvinnuvegs. Tryggja þarf að bætur séu ekki skertar kjósi einstaklingurinn að nýta sér möguleika til atvinnu eða önnur tækifæri. Einfalda þarf framfærslukerfið.

Á lokasekúndunum ætla ég að nefna að Píratar vinna eftir grunnstefnunni sem er líka á vefsíðunni piratar.is þar sem kemur fram að Píratar beita sér fyrir eflingu og verndun borgararéttinda. Efling og verndun borgararéttinda þýðir auðvitað í samhengi við aldraða og öryrkja að þeir þurfa að njóta góðrar réttarverndar sem þeir gera ekki í dag vegna þess að almannatryggingakerfið er of flókið sem þýðir að fólk sem er beitt misréttarkerfinu á mjög erfitt með að leita réttar síns, bæði (Forseti hringir.) efnahagslega og líka bara vegna þess að ferlið er allt mjög flókið. Þetta vona ég að við getum lagað sem fyrst. Ég bíð óþreyjufullur eftir niðurstöðum nefndar sem er að störfum núna um þau mál.


Efnisorð er vísa í ræðuna