145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[14:04]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, á þskj. 371 í máli nr. 457. Frumvarpið er byggt á frumvarpi sama efnis sem lagt var fram á síðasta þingi en þó hafa verið gerðar á því nokkrar breytingar. Hér er á ferðinni aðeins víðtækara frumvarp þar sem áherslan er annars vegar á einföldun regluverks og hins vegar á breyttan flokk heimagistingar. Meginefni frumvarpsins varða breytingu á skilgreiningu og notkun gistiflokks I, heimagistingar. Í öðru lagi fráhvarf frá rekstrarleyfisskyldu fyrir veitingastað í flokki I, þ.e. veitingastaði án áfengisveitinga. Í þriðja lagi ótímabindingu rekstrarleyfa sem sýslumaður veitir. Nánari skýringar á breytingum frumvarpsins eru sem hér segir.

Fyrst er varðar breytta skilgreiningu á heimagistingu. Eins og öllum er kunnugt hefur ferðamannastraumur til landsins verið að stóraukast síðustu árin. Þessi fjölgun hefur leitt til þess að hótel og gististaðir hafa ekki náð að anna eftirspurn. Meðal annars þess vegna höfum við séð mikinn vöxt í heimagistingu hér á landi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur einnig haft áhrif uppgangur og vinsældir hins svokallaða deilihagkerfis.

Það má segja að lög og reglur um gististaði og veitingastaði hafi ekki verið í takt við þennan nýja veruleika þar sem erfitt hefur verið fyrir einstaklinga að bjóða upp á heimagistingu löglega. Umhverfið hefur verið flókið og fráhrindandi í þeim efnum. Það sýnir sig í því að samkvæmt nýlegri skýrslu sem Háskólinn á Bifröst vann fyrir ráðuneyti mitt hafa aðeins um 13% af heimagistingu í boði á höfuðborgarsvæðinu gild rekstrarleyfi eins og lögin í dag gera ráð fyrir. Þó ber að taka fram að í þessu frumvarpi er ekki verið að taka utan um allt þetta heldur þann flokk sem snýr að einstaklingum, ekki lögaðilum. Inni í tölum Bifrastar er mengið stærra þar sem þeir sem leigja út í atvinnuskyni eru líka þar undir.

Með frumvarpinu er verið að uppfæra löggjöfina til samræmis við þennan breytta veruleika og tilvera deilihagkerfisins viðurkennd ásamt því að verið er að einfalda regluverkið gagnvart einstaklingum sem vilja taka þátt í þessu. Í frumvarpinu er lögð til útvíkkun á flokki heimagistingar, gistiflokki I, en í dag er flokkurinn skilgreindur sem gisting á einkaheimili leigusala gegn endurgjaldi og gert er ráð fyrir að í það minnsta einn af heimilismönnum búi á heimilinu. Flokkurinn verður nú endurskilgreindur þannig að hann taki til gistingar gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota og er í hans eigu. Húsnæðið má ekki bjóða til leigu lengur en 90 daga samanlagt á ári hverju. Það eru þessar tvær eignir. Til þess að starfrækja heimagistingu þurfa einstaklingar að skrá sig á vefsvæði sýslumanns á viðkomandi stað eða á tiltekinni sameiginlegri vefsíðu eða vefgátt. Lögaðilum verður ekki heimilt að skrá sig í flokk heimagistingar, einungis einstaklingum.

Ekki verður lengur gerð krafa um rekstrarleyfi og þessir einstaklingar munu þannig ekki fara í gegnum sama umsagnarferli og umsækjendur um gistileyfi í öðrum flokkum. Aðilum ber þó að uppfylla kröfur um brunavarnir sem fram munu koma í reglugerð, svo sem varðandi fjölda reykskynjara og annarra brunavarna.

Þá er gististarfsemi, þar með talin heimagisting, starfsleyfisskyld samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Þessi löggjöf heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra en þegar þetta frumvarp verður að lögum mun umhverfis- og auðlindaráðherra breyta heilbrigðisháttalögunum og reglugerð um hollustuhætti þannig að skráðum heimagistingaraðilum dugi að tilkynna um útleigu og sæta eftirliti hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar. Þá leggur frumvarpið einnig þá kröfu á aðila með skráða heimagistingu að þeir skili nýtingaryfirliti til sýslumanns á viðkomandi svæði. Sýslumenn verða eftirlitsaðilar með skráðum og skráningarskyldum aðilum í heimagistingu og hafa heimild til að beita nýjum úrræðum svo sem afskráningu, synja um endurskráningu og eins að leggja stjórnvaldssektir á þá einstaklinga sem stunda útleigu án skráningar. Það nýmæli er sett að aðilum verður úthlutað númeri sem þeim ber að gefa upp og sýna við markaðssetningu á fasteign, þar á meðal á vefsíðum og í auglýsingum. Þetta á við bæði um einstakling í heimagistingu og lögaðila í öðrum gistiflokkum eða veitingahúsaflokkum. Þetta mun gera eftirlitsaðilum mun auðveldara að fylgjast með gisti- og veitingaiðnaðinum, sérstaklega þeim sem ekki gefa upp númer. Þá styrkir þetta einnig neytendavernd því að neytendur munu geta beint viðskiptum sínum að þeim sem starfa löglega og uppfylla þá meðal annars kröfur um brunavarnir, hvort sem er í heimagistingu, á gistiheimilum eða hótelum.

Virðulegur forseti. Annað atriði sem frumvarpið tekur á varðar veitingastaði án áfengisveitinga. Það er ekki lengur rekstrarleyfisskyld starfsemi, þ.e. leyfisskylda á veitingastöðum sem ekki selja áfengi fellur niður. Þetta einfaldar leyfismál þessara staða umtalsvert og sparar kostnað. Nái frumvarpið fram að ganga mun starfsemi þessara staða einungis vera háð leyfi frá viðkomandi sveitarfélagi og starfsemin metin út frá hollustuháttum, byggingarreglugerð og skipulagsmálum. Staðirnir munu einnig áfram sæta lögbundnu eftirliti. Þarna er verið að fela ábyrgðina og umsjónina á þessu til sveitarfélaganna sem eru í miklu betri færum til að annast þessa starfsemi.

Rekstrarleyfi fyrir veitingastaði í flokkum II og III og gististaði í flokkum II, III og IV verða með þessu frumvarpi gerð ótímabundin. Í núgildandi kerfi eru leyfin veitt til fjögurra ára í senn og mögulegt er að sækja um endurnýjun að þeim tíma liðnum. Breyting þessi er í samræmi við tillögu stýrihóps Ferðamálastofu um einföldun starfsumhverfis og regluverks í ferðaþjónustu. Heimildir til að afturkalla leyfi verða þó áfram þær sömu. Þess má geta að ný lög um bílaleigur sem samþykkt voru á síðasta ári eru einmitt með sama hætti, með leyfin ótímabundin.

Í ljósi markmiða um einföldun regluverks felst einnig í frumvarpinu samræming á umsögnum sveitarfélags, byggingarfulltrúa, slökkviliðs og heilbrigðiseftirlits. Markmið breytingarinnar er að einfalda ferli leyfisveitinga gagnvart umsækjanda á þann hátt að sveitarstjórn safni saman umsögnum frá aðilum innan síns stjórnkerfis og gefi að því búnu út sameiginlega umsögn. Gert er ráð fyrir að hvert sveitarfélag hafi ákveðið svigrúm til að útfæra ferlið.

Markmið frumvarpsins er því að ná fram verulegri einföldun í starfsumhverfi veitingastaða og gististaða með afléttingu á leyfisskyldu og ótímabundnum leyfum. Þá er það markmið okkar að með breytingunum á umhverfi heimagistingar verði fólki einfaldað að leigja út heimili sín til ákveðins hámarkstíma á ári. Þannig verði tekið meðal annars á leyfislausum gististöðum. Heimagisting í gegnum vefsíður á borð við Airbnb og booking.com hefur verulega sótt í sig veðrið á undanförnum árum og hér er einfaldlega verið að koma til móts við þá stöðu og gera regluverkið í kringum þann raunveruleika sem við upplifum þannig úr garði að menn geti tekið þátt í þessu með einföldum og löglegum hætti. Með því munum við vonandi líka ná til svartrar atvinnustarfsemi, ná henni upp á borðið, og einstaklingar eiga mun auðveldara, eins og ég sagði áðan, með að standa löglega að málum. Ég trúi því að meginþorri almennings vilji standa löglega að málum og því þurfum við að viðurkenna að þessi raunveruleiki er til og gera umhverfið einfalt og skýrt.

Í þessu samhengi vil ég sérstaklega nefna fasteignaskatta. Mikill munur er á fasteignagjöldum sem greiðast af íbúðarhúsnæði annars vegar og atvinnuhúsnæði hins vegar. Tilgangur frumvarpsins er ljós hvað varðar heimagistinguna, þ.e. þá sem einstaklingar en ekki lögaðilar stunda. Hann er sá að flokkur heimagistingar eigi almennt ekki að taka til einstaklinga í atvinnustarfsemi, fremur til persónulegrar hagnýtingar eignar. Það er einnig ljóst að það eru fjölmargar íbúðir í svartri útleigu allt árið sem ættu að vera skráðar sem atvinnuhúsnæði. Þar eru sveitarfélögin að missa tekjur. Það er því stórt hagsmunamál að þetta mál nái fram að ganga og að með frumvarpinu gefist eftirlitsaðilum betra færi á að einbeita sér að þeim hópi og eins þeim sem hafa þann einbeitta vilja að svíkja undan skatti og fara á svig við reglur.

Frumvarp þetta hefur verið unnið í ríkri samvinnu við ferðaþjónustuna ásamt samvinnu við bæði innanríkisráðuneytið, velferðarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Nú tekur við frekari skoðun og yfirferð í atvinnuveganefnd. Við vitum að ýmis sjónarmið munu koma fram og meðal annars höfum við heyrt ávæning af gagnrýni vegna 90 daga reglunnar. Í frumvarpinu sem var lagt fyrir þingið á síðasta þingi voru þetta átta vikur en það var vegna umsagna sem bárust þinginu á þeim tíma sem tekin var ákvörðun um að lengja þetta tímabil upp í 90 daga. En það geta verið sjónarmið og má færa rök fyrir því, menn hafa áhyggjur af því að þetta geti þá verið óeðlileg samkeppni á milli þeirra sem segjum reka gistiheimili yfir hásumarmánuðina sem gætu verið 90 dagar og þeim teljist til að þetta geti skekkt þá samkeppnisaðstöðu. Ég hvet því nefndina til að fara vel yfir þessi sjónarmið, heyra allar hliðar þess máls, og taka ákvörðun um það hvort þessu beri að breyta. Ég lýsi því yfir að ráðuneytið og starfsfólk þess, hvort sem það er ég eða starfsmenn mínir, er tilbúið til samstarfs hvað þetta varðar.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.