145. löggjafarþing — 65. fundur,  21. jan. 2016.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

457. mál
[14:36]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þann áhuga sem hann sýnir þessu máli. Ég veit að hann gerði það líka þegar frumvarpið, sem ekki náðist að klára hér á síðasta þingi, var til meðferðar nefndarinnar.

Fyrst varðandi eftirlitið: Það var kannski það snúnasta í þessu máli að finna út hvernig er best að haga því. Ég hvet nefndina til að skoða það. Það varð að niðurstöðu okkar að fela sýslumönnum það eftirlit. Já, það verður dýrara vegna þess að lögreglan, sem hefur þetta eftirlit með höndum núna, er ekki að sinna því, kemst hreinlega ekki yfir það að sinna því.

Með því nýmæli sem verið er að taka upp, að mönnum er gert skylt að vera með númer, er hægt að skoða þetta meira á netinu. Síðan verður að sjálfsögðu gott samstarf á milli lögreglu og sýslumanna um að fara á staðinn. Ég get ekki tekið undir það með hv. þingmanni að það þýði að verið sé að kasta hlutunum á milli. Ég held að það sé góð niðurstaða að fela sýslumönnum að hafa yfirumsjón með þessu þannig að þeir beri ábyrgð á þessu.

Það er líka í samræmi við það markmið okkar, þegar sýslumannsembættin voru sameinuð, að fela þeim fleiri verkefni og þau eru til staðar úti um allt land. Það eru góð rök fyrir því og ég hvet nefndina til að fara yfir það.

Brunavarnakröfurnar verða útfærðar í reglugerð. Varðandi það hvort leyfin eigi að vera tímabundin eða ótímabundin þá er ég einfaldlega ekki sammála hv. þingmanni í því efni. Ég tel engin rök fyrir því að nota það sem ástæðu að það sé tekjulind að endurnýja leyfisgjald, sem rök fyrir því að snúa fólki að óþörfu, hvort sem það tengist einstaklingum eða atvinnurekstri. Þetta er sú leið (Forseti hringir.) sem við erum að fara.

Ég mun klára athugasemdirnar í síðara andsvari mínu, en þó vil ég segja að lokum að hér er ekki neitt eftirlitsgjald lagt til þannig að það er einhver misskilningur af hálfu þingmannsins.