145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

staða heilbrigðiskerfisins.

[15:09]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um stöðu heilbrigðiskerfisins sem er mikið í umræðunni þessa dagana og kannski ekki síst út frá undirskriftasöfnun sem nú er í gangi sem gengur mjög hratt, margar undirskriftir safnast upp, um stóraukin framlög til heilbrigðiskerfisins.

Við í Bjartri framtíð höfum talað fyrir því, frá upphafi þessa kjörtímabils, að mikilvægt sé að taka veglega og almennilega á málefnum heilbrigðiskerfisins og kannski ekki síst Landspítalans, sem er hryggjarstykkið í heilbrigðiskerfinu hjá okkur, og horfa til þess að framlög til heilbrigðiskerfisins hafa verið að leka niður, ekki bara á þessu kjörtímabili heldur í raun allt frá aldamótum. Hægt og rólega hefur það hlutfall af þjóðarframleiðslu sem við höfum lagt í heilbrigðiskerfið lækkað. Á sama tíma hefur bæði verið fjölgun meðal þjóðarinnar og fjölgun á höfuðborgarsvæðinu sem Landspítalinn er staddur á. Sömuleiðis er þjóðin að eldast og fleiri þurfa á þjónustu að halda.

Hlutfall okkar hér á Íslandi er sérstaklega bágborið þegar kemur að innviðauppbyggingu. Árið 2013 er hlutfall innviðauppbyggingar í heilbrigðiskerfinu um 0,1% af vergri þjóðarframleiðslu, það næstlægsta í mælingum OECD, meðan það er að meðaltali 0,5%. Þá erum við kannski sérstaklega að horfa á þessa löngu bið eftir uppbyggingu á nýjum Landspítala.

Mig langar að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra hvort hann geti boðað, fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar, áætlun um endurreisn heilbrigðiskerfisins og tímasettar aukningar á fjárveitingum til málaflokksins.