145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

staða heilbrigðiskerfisins.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst verð ég að leiðrétta hv. þingmann. Það er ekki rétt að framlög til heilbrigðismála hafi lækkað á síðustu árum. Á þessu kjörtímabili hafa þau hækkað ár frá ári og hafa reyndar aldrei verið meiri. Það er unnið að áætlun um endurreisn heilbrigðiskerfisins. En auðvitað lætur það á sjá þegar skorið er niður um hátt í 30 milljarða á einu kjörtímabili. Nú eru framlög til heilbrigðismála á Íslandi hærri en þau hafa áður verið. Það er hins vegar alveg ljóst að á næstu árum og áratugum mun þörfin fyrir enn meiri framlög halda áfram að aukast. Fyrir því eru ýmsar ástæður; meðalaldur þjóðarinnar hækkar, stórir árgangar komast á efri ár, menn gera líka kröfur um að fá nýjustu, bestu og oft og tíðum fyrir vikið dýrustu lyfin, bestu og nýjustu tækin o.s.frv. Svoleiðis að kröfurnar aukast og kostnaðurinn, af ýmsum ástæðum, og mun gera það áfram.

Þess vegna verðum við að ná að framleiða meiri verðmæti í þessu samfélagi. Framleiða meiri verðmæti, auka verðmætasköpun og greiða niður skuldir. Þetta er það sem skiptir máli til þess að geta staðið undir þeim kröfum sem landsmenn munu gera til heilbrigðiskerfisins, ekki bara á næstu árum heldur áratugum. Það ætti að vera forgangsmál hjá þeim sem gera sér grein fyrir þörfinni, sem sannarlega er til staðar í heilbrigðiskerfinu, að leita allra leiða til að auka verðmætasköpun á Íslandi og á sama tíma greiða niður skuldirnar því að það er ákaflega blóðugt að borga til dæmis miklu meira í vexti af ríkisskuldum en nemur öllum kostnaðinum við rekstur Landspítalans á ári.