145. löggjafarþing — 66. fundur,  25. jan. 2016.

kjör aldraðra og öryrkja.

[15:32]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Skelfing er þetta nú aum tilraun til popúlisma. Hv. þingmaður veit það mætavel — hann hefur setið hér á þingi lengi og meira að segja í ríkisstjórn — að lífeyrisgreiðslur hafa ætíð verið hækkaðar um áramót. Ég væri alveg opinn fyrir því að skoða það að hækka þessar greiðslur oftar eða tengja það við það þegar sem flest stéttarfélög eru að semja. Það er allt í lagi að skoða það.

Hv. þingmaður ætti að hafa í huga að eldri borgarar hafa á síðustu árum hagnast á því fyrirkomulagi að þetta skuli gert upp um áramót vegna þess að þá er farið yfir allt árið. Þá er það allt tekið með í reikninginn, verðlagshækkanir, launahækkanir og gert upp um áramótin.

Með öðrum orðum: Ef leið hv. þingmanns hefði verið farin á síðustu árum þá hefðu kjör eldri borgara ekki batnað jafn mikið og þau hafa gert með núverandi fyrirkomulagi.

Jafnframt er rétt að minna hv. þingmann á, af því að hann talar nú um þessa ríkisstjórn og þróun mála í tíð hennar, að kaupmáttur bóta hefur sjaldan aukist jafn hratt. Auðvitað er hann ekki orðinn nógu mikill en hann er að aukast miklu hraðar en í tíð síðustu ríkisstjórnar og mun halda áfram að aukast við næstu áramót.