145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við höfum mikið rætt hér á þingi og úti í samfélaginu frumvörp velferðarráðherra eða félags- og húsnæðismálaráðherra og innlegg hennar í kjaraviðræðurnar sem eru m.a. almennar leiguíbúðir og fleira því tengt. Í því samhengi hefur mikið verið rætt um afslátt af byggingarkröfum. Í hádeginu í dag var meðal annars rætt við Guðjón Sigurðsson sem er formaður MND-félagsins, en er líka pípulagningameistari. Hann telur að ef af fyrirhuguðum breytingum á reglugerðinni verði sé það árás á hreyfihamlað fólk á Íslandi. Fyrst og fremst sé verið að huga að lækkun byggingakostnaðar, en það er vert að geta hvað í því felst ef fram fer sem horfir. Meðal annars er verið að tala um breytingar á stærðarkröfum vegna snúningshrings hjólastóla og í drögunum er gefinn 20 sentímetra afsláttur af snúningsradíus þeirra. Kröfur um lofthæð, birtu og svalir eru líka rýmkaðar og minni kröfur eru gerðar um aðgengi. Af þessu hef ég miklar áhyggjur, þ.e. aðgengismálunum.

Á síðasta kjörtímabili stóð þingið að því að semja og samþykkja ný mannvirkjalög. Í drögunum var það þannig að þáverandi hæstv. ráðherra, Svandís Svavarsdóttir, lagði til að stuðlað yrði að aðgengi fyrir alla. Þingið tók enn harðari afstöðu og sagði: Við ætlum að tryggja aðgengi fyrir alla.

Virðulegi forseti. Þetta þýðir að stjórnarflokkarnir, ætli þeir að láta þessi frumvörp koma fram, verða að leggja til breytingar á mannvirkjalögum og láta þær koma fyrir þingið sem þarf að samþykkja þær eða synja þeim. Í samningi Sameinuðu þjóðanna segir að við ætlum að stuðla að þátttöku alls fólks í daglegu lífi, m.a. fatlaðs fólks og eldri borgara, en með þessum hætti drögum við úr líkum á því að báðir þessir hópar geti til langframa búið í þeim íbúðum sem lagt er upp með í frumvörpum velferðarráðherra. (Forseti hringir.) Það á ekki að fjalla um þessa hópa, fatlað fólk og eldri borgara sem þurfa öðruvísi aðstoð, (Forseti hringir.) í einhverjum bútum, við eigum að draga þetta allt saman hérna inn (Forseti hringir.) og fjalla um það í sínu stóra samhengi.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna