145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

Parísarfundurinn um loftslagsmál, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[15:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa skýrslu hæstv. ráðherra og ágæta umræðu í kjölfar hennar. Sá kafli sem við stöndum frammi fyrir núna í loftslagsmálum á Íslandi er heimavinnukaflinn, þ.e. að vinna úr því sem fyrir liggur eftir Parísarfundinn á heimavelli. Ég vil nefna þar nokkur atriði.

Í fyrsta lagi þarf Ísland að hverfa frá öllum áformum um olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Í öðru lagi þarf að verða hér viðsnúningur í atvinnustefnu að því er varðar áframhaldandi stóriðjuuppbyggingu. Við þurfum að hverfa frá viðbótum í þeim efnum. Við þurfum að efla loftslagssjóð til að styðja við nýsköpun og þróun, vísindi og tækni í þágu loftslagsvænnar tækni því að það er mikilvægt að allar framfarir og þróun séu í þágu þeirra markmiða að grænka íslenska hagkerfið og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Þarna þarf umhverfis- og auðlindaráðuneytið að hafa forustu. Forustuhlutverkið er þar. Loftslagsmálin heyra undir ráðuneyti hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra og í því felst ábyrgðin á því að leiða hagsmunaaðila að borðinu. Þá vil ég í fyrsta lagi nefna sveitarfélög en fram hefur komið að samstarf Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins í loftslagsmálum er í algjöru lágmarki núna þegar það snýst um það eitt að fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga á sæti í samstarfshópi um framkvæmd aðgerðaáætlunar frá 2010 ásamt fulltrúum fimm ráðuneyta. Það þarf að hvetja til þess að öll sveitarfélög á Íslandi leggi fram áætlanir um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Sveitarfélögin hafa mörg hver byrjað slíka áætlanagerð og er full ástæða til að leiða þessa krafta og þessar hugmyndir saman að borðinu.

Ferðaþjónustan, ný og öflug atvinnugrein, kallar eftir því að ráðuneyti umhverfismála komi að því að efla stefnumótun hvað varðar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda í þeim nýja og vaxandi geira.

Virðulegur forseti. Í nýlegu svari hæstv. ráðherra, við fyrirspurnum mínum um einstök atriði framkvæmdar loftslagsstefnu Íslands, kemur fram að samstarfs ráðuneytisins um loftslagsmálin við samgönguyfirvöld er líka í lágmarki.

Innanríkisráðuneytið á fulltrúa í samstarfshópi um minnkun nettólosunar gróðurhúsalofttegunda og í samninganefnd Íslands í loftslagsmálum. Samgöngustofa hefur lögbundnar skyldur til að skila upplýsingum til Umhverfisstofnunar vegna losunarbókhalds.

Virðulegur forseti. Loftslagsmál eiga að vera miðlæg í öllum ákvörðunum að því er varðar samgöngumál. Þar þurfum við líka að reiða okkur á forustu umhverfis- og auðlindaráðherra eins og í öðrum þeim málum sem ég hef þegar vikið að.

Fram kom í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur að þingflokkur VG hefur lagt fram tvær tillögur í loftslagsmálum. Annars vegar um loftslagsráð. Það er skynsamleg og góð tillaga sem ég veit að hæstv. ráðherra þekkir og hefur skoðað sem lýtur að auknu samstarfi og samráði í þessum málaflokki. Hin tillagan lýtur að því að Ísland stefni að því að verða kolefnishlutlaust árið 2050 rétt eins og við höfum séð í löndunum í kringum okkur að ríkisstjórnir eru farnar að leggja fram sem markmið viðkomandi samfélaga. Þar eigum við ekki að vera eftirbátar. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða þá tillögu líka.

Loks vil ég segja að sá hópur þingmanna sem sótti loftslagsráðstefnuna í París — ég held að það sé full ástæða til þess að sá hópur verði áfram til og ég held að það sé full ástæða til þess að sá hópur verði nokkurs konar samráðshópur um loftslagsmál. Verði hópur sem sér um að halda utan um umræðu um þennan málaflokk.

Hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur málaflokkinn til skoðunar og meðferðar þegar um er að ræða tiltekin þingmál. En þegar um er að ræða framkvæmd stefnu Íslands og þann augljósa stuðning sem hæstv. ráðherra þarf á að halda af hendi þingsins, og það skipulega samráð og samstarf sem þarf að vera fyrir hendi milli ráðherra og löggjafans í þeim efnum, þá tel ég einboðið að halda þeim þræði vakandi sem varð til með sendinefnd Íslands til Parísar nú á síðasta ári og fela þeim hópi það verkefni að vera í slíku samráði við ráðherra.

Ég hef vikið hér að nokkrum atriðum sem ég tel að geti verið innihald stefnumörkunar Íslands því að það kemur líka fram í fyrrnefndu svari að Ísland hefur enn ekki (Forseti hringir.) lagt fram neina áætlun um hvernig það ætlar að taka þátt í sameiginlegum markmiðum Evrópuríkja um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.