145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég býst við að þessari umræðu fari að ljúka von bráðar en mig langar að koma örstutt inn á eitt atriði sem kemur af og til upp í umræðunni en það er spurningin um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi hugmynd er nefnd víða, ekki síst í einu nefndaráliti og hver veit nema fleirum, og talað mikið um þjóðarviljann. Reyndar kemur þetta fram í nokkrum nefndarálitum og umsögnum og viðræðum.

Þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslu um mál eins og þetta verð ég að segja fyrir sjálfan mig að mér þætti það afskaplega fínt og teldi það fullkomlega eðlilegt að svona mál færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar þykir mér vondur bragur á því að slíkar ákvarðanir séu teknar af yfirvöldum eða þeim sem eru við völdin. Að mínu mati væri það ekki í sjálfu sér beint lýðræði. Beint lýðræði er þegar þjóðin sjálf ákveður hvað fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Því verð ég að segja að ef það kæmi til að Alþingi samþykkti þetta frumvarp, sem ég veit ekki hvort yrði raunin ef það færi í gegnum þrjár umræður, og til kæmi undirskriftalisti upp á 10% kosningarbærra manna eða meira, þætti mér góð hugmynd að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. En auðvitað væri langbest ef það væri formlegur ferill til þess, ferill sem væri ekki háður geðþótta þingmanna, hvort sem þeir eru í minni hluta eða meiri hluta. Mig langaði bara að nefna þetta örstutt fyrir umræðuna vegna þess að þetta heyrist oftar eftir því sem umræðunni vindur fram. Mér finnst því rétt að halda þessu til haga, ekki síst í ljósi orða hæstv. forsætisráðherra nýlega um hugmyndir um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um verðtrygginguna, eitthvað sem ég sé ekkert tilefni til og ekkert ákall um heldur. Þegar við veltum svona máli fyrir okkur í ljósi þjóðaratkvæðagreiðslna þykir mér mikilvægt að við séum með prinsippin á hreinu sem liggja að baki þjóðaratkvæðagreiðslum og beinu lýðræði.

Að því sögðu tel ég þetta mál henta óvenjuvel í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það varðar fyrst og fremst gildismat. Það er ekki bara spurning um staðreyndir, sem margar hverjar, alla vega sumar, eru óumdeildar, heldur líka hvernig fólk vill sjá hlutverk ríkisins, sjá hlutverk Alþingis í því að stjórna samfélaginu í takt við eigið gildismat. Sem dæmi þá gefur þingheimur sér oft á tíðum og yfirvöld, og reyndar almenningur, að það sé hlutverk Alþingis að tryggja sem besta lýðheilsu. Það séu rök sem trompi allt annað. Ég er bara í grundvallaratriðum ósammála því. Þótt að lýðheilsa skipti vissulega verulegu máli er það hins vegar ekki yfirvalda að ákveða hvaða gildismat stjórnar lífi hvers og eins. Við tökum öll meðvitaða ákvörðun á hverjum einasta degi um að fórna einu fyrir annað. Stundum fórnum við pínulitlu af heilsu fyrir eitthvað annað. Það þykir mér ekki bara persónulega eðlilegt heldur finnst mér það umfram allt ekki vera mín ákvörðun, ekki ákvörðun Alþingis, hvernig fólk vill nýta tíma sinn í þessu lífi. Ég borða oft mat og sennilega flestir hér inni borða oft mat sem þeir vita að er óhollur. Þeir gera það samt því það er það sem þeir vilja, óháð því hvað Alþingi finnst um lýðheilsusjónarmið. Það að setja einhver ákveðin gildi eins og heilsu í tölfræði þýðir ekki að einkamál allra landsmanna verði skyndilega mál Alþingis. Ég legg til að heilsa sé í veigamiklum atriðum einkamál, þ.e. upp að því marki sem hún tilheyrir einstaklingnum, en ekki þegar kemur að skyldu okkar allra til að hjálpa hvert öðru þegar heilsan brestur, sem er vitaskuld skylda okkar allra.

Ég vil storka því sem virðist gefið, að það sé hlutverk okkar að ákveða gildismat almennings. Það er kannski aukaatriði við hliðina á því að hér er um að ræða gildisspurningu. Sama hvaða ákvörðun við tökum um þetta mál er hún ekki einfaldlega rétt eða einfaldlega röng. Hún er háð því hvernig fólk vill lifa sínu lífi og í hvernig samfélagi það vill búa. Vandinn við þetta frumvarp og í raun helsta ástæða þess að þetta er frumvarp á Alþingi er að niðurstaðan kemur okkur öllum við. Jafnvel þótt niðurstaðan varði eitthvað sem er í grundvallaratriðum einstaklingsákvörðun kemur þetta okkur öllum við á einhvern hátt. Mér þykir því alveg kjörið að setja þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu en eins og ég segi og ítrekaði áðan finnst mér að það frumkvæði ætti að koma frá þjóðinni ef það ætti að heita lýðræðisumbætur.