145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér hefur fundist svolítið sérkennilegt í þessu máli að einhverjir 63 þingmenn sem voru kosnir hingað inn út af hinu og þessu en ekki út af skoðun þeirra á nákvæmlega þessu máli, a.m.k. var ég aldrei spurð út í þetta mál í kosningabaráttunni og mér finnst ég ekki beinlínis hafa umboð minna kjósenda til að taka afstöðu til þess þó að ég geri það þegar þar að kemur — þess vegna hefur mér fundist þetta mál alveg tilvalið í þjóðaratkvæðagreiðslu því að fólk hefur sterkar skoðanir á því, með og á móti. Ég er alveg tilbúin að sætta mig við það ef þjóðin vill fá áfengi í verslanir, þá er það bara þannig, og ef hún vill það ekki, þá er það þannig.

Ég heyri hv. þingmann tala um þetta líka því að mér hefur fundist lítil umræða um þessa leið í málinu. Ég talaði um þetta í ræðu minni. Gæti þetta ekki verið breytingartillaga eða væri einhver lausn að varpa þessari spurningu til þjóðarinnar?

Í dag mundi ég væntanlega sitja hjá vegna þess að mér finnst þetta svona hvorki/né mál. Ég held að það sé ekki dauði og djöfull ef af þessu verður, en ég get líka alveg séð rökin fyrir því að aðgengi að áfengi eigi að vera takmarkað og jafnvel takmarkaðra en það er í dag ef út í það er farið.

Hvað finnst hv. þingmanni um þetta? Er þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál kannski ásættanleg lausn?