145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[16:37]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Það sem við erum ekki með ákvæði núna í stjórnarskrá um að einhver hluti þjóðarinnar geti skotið málum í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvernig sér þá hv. þingmaður fyrir sér að þjóðin ákveði, eins og hann orðaði það, að fá þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu? Erum við að tala um undirskriftasöfnun, einhvern lista eða ákall sem færi af stað hjá þjóðinni eins og oft hefur verið? Og mundum við þingmenn þá líta svo á að þetta væri greinilega mál sem þjóðin vildi hafa eitthvað um að segja? Undirskriftasöfnun væri farin af stað á netinu og 30 þúsund undirskriftir hefðu safnast og þá mundum við segja: Já, við leggjum til að þetta mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvernig berum við okkur að í dag á meðan þessi réttur er ekki til staðar, fyrir utan að fólk getur auðvitað reynt að hafa áhrif á forsetann og óskað eftir að hann synji lögum staðfestingar sem ég gæti alveg ímyndað mér að mundi gerast í þessu máli miðað við hvað það eru heitar tilfinningar í því?