145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Undirskriftasöfnun að undirlagi Kára Stefánssonar, um að endurreisa heilbrigðiskerfið, hefur hlotið mikla umræðu í samfélaginu. Að því er mér skilst hafa meira en 50.000 manns skrifað undir kröfu um að endurreisa heilbrigðiskerfið. Í kröfunni segir að gott heilbrigðiskerfi endurspegli sjálfstæða samhygð, en lélegt heilbrigðiskerfi óásættanlegan kulda gagnvart þeim sem séu hjálparþurfi. Það sé mat þeirra sem skrifa undir að á síðasta aldarfjórðungi hafi stjórnvöld vannært íslenskt heilbrigðiskerfi.

Það má velta því fyrir sér, og margir hafa gert það, hvort 11%, sem krafa er gerð um í þessari yfirlýsingu, séu rétta prósentutalan, en ég held að hv. þingmenn verði að hlusta eftir þessari kröfu landsmanna, meira en 50.000 landsmanna, um að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins. Þá vekur það spurningar þegar við heyrum hv. þingmenn stjórnarflokkanna koma hér fram og segja: Hvaðan eigum við að taka peningana?

Þarna komum við að grundvallarspurningu í íslenskum stjórnmálum sem snýst um það hvert umfang samneyslunnar eigi að vera. Hvernig ætlum við að fjármagna hana? Það þarf ekki að koma neinum á óvart sem hefur fylgst með aðgerðum ríkisstjórnarinnar, frá því hún tók við völdum, að þegar kemur að tekjustofnum ríkisins, hvort sem litið er til auðlindagjalda eða veiðigjalda, orkuskatts eða auðlegðarskatts, til breytinga á tekjuskattskerfinu, að markvisst hefur verið unnið að því að veikja tekjustofnana.

Fyrir kosningar 2013 lögðum við vinstri græn fram ríkisfjármálaáætlun sem miðaði að því að tekjustofnum yrði haldið óbreyttum, að tryggt yrði að arðurinn af auðlindunum rynni til þess að byggja um innviði samfélagsins. Ég held að þessi undirskriftasöfnun — sem snýst fyrst og fremst um þetta, um það hvert umfang samneyslunnar eigi að vera, og að stjórnmálamenn þurfa að svara því hvernig eigi að fjármagna hana — sýni að almenningur vill setja þessi mál á dagskrá. Ég held að hv. þingmenn megi ekki daufheyrast við því (Forseti hringir.) heldur taka alvarlega þann ríka vilja sem þarna birtist til að efla innviði samfélagsins okkar. Þá þarf auðvitað að horfa til tekjuöflunarinnar, herra forseti, og það þarf nýja hugsun í þeim málum.


Efnisorð er vísa í ræðuna