145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er fagnaðarefni að kjarasamningur hefur tekist milli aðila vinnumarkaðarins en um leið hryggilegt að enn og aftur eigi aldraðir og öryrkjar ekki að fá hlutdeild í kjarabótum með sama hætti og frá sama tíma og aðrir, og að forsætisráðherra skuli hafa hafnað því hér í fyrirspurnartíma þegar hv. þm. Kristján L. Möller tók það upp við hann í upphafi vikunnar. Ég hélt satt að segja að það hefði verið nóg hvernig gengið var fram hjá þessum hópum á síðasta ári þó að ekki eigi að endurtaka leikinn. Ég skora á hv. alþingismenn að beita sér fyrir því að þetta verði ekki látið standa svona. Það er skylda okkar sem ákveðum kjör lægst launuðu hópanna í landinu, lífeyrisþeganna í almannatryggingakerfinu, að tryggja að þeir njóti sömu hækkana frá sama tíma og aðrir. Ef við á Alþingi erum ekki fær um það eigum við að fela einhverjum öðrum það verkefni. Við hljótum að þurfa að íhuga hvort við eigum að fá kjararáð eða einhvern annan aðila til að annast það verkefni sem við sjálf erum ekki fær um.

Nú er unnið að endurskoðun almannatrygginga í heild sinni og það er miður að þar er ekki útlit fyrir að samkomulag takist í þeirri nefnd fremur en svo mörgum öðrum. Ég tel hins vegar að þar sé gott tækifæri til að ná samstöðu um breytingar á ellilífeyri sem leitt gætu til nokkurra kjarabóta, einkum fyrir þá sem eiga nokkur réttindi úr lífeyrissjóði en þó ekki veruleg. Ég hvet þingmenn allra flokka til að leggja lið sitt slíkum breytingum en líka að reyna að tryggja að einnig náist sambærilegar kjarabætur fyrir öryrkja í landinu og samkomulag við Öryrkjabandalag Íslands (Forseti hringir.) um slíkar aðgerðir.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna