145. löggjafarþing — 68. fundur,  27. jan. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[17:35]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir ræðu hennar og það verður víst ekki annað sagt en að í þessu máli séum við ansi sammála. Við vorum það á síðasta þingvetri og mér heyrðist á ræðu hv. þingmanns að við séum það enn núna þegar verið er að leggja þetta mál fram öðru sinni.

Hv. þingmaður kom að því við lok ræðu sinnar að hún sé hissa á því að ekki sé að finna rökstutt lögfræðiálit með frumvarpinu og það sé heldur ekki að finna neinar tölfræðilegar úttektir. Þetta sló mig einnig vegna þess að þetta var eitt af því sem var rætt talsvert í hv. velferðarnefnd á síðasta ár, þ.e. skorturinn á upplýsingum.

Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort henni finnist ekki undarlegt í ljósi þess að mikið var rætt að það vanti hreinlega upplýsingar um hópinn sem hefur orðið fyrir skerðingum að ráðherra hafi ekki lagt í vinnu á þeim mánuðum frá því að málið var síðast til umræðu, að hann hafi ekki farið í þá vinnu að kalla eftir þessum upplýsingum og reyna að leggja mat á áhrifin, ekki bara makró- heldur einnig míkróáhrifin sem skilyrðingar sem þegar hefur verið beitt hafa, hvaða áhrif það hefur á hópinn. Er það ekki ráðherranum til vansa að hafa ekki farið í þá vinnu?