145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[11:59]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara varðandi Indland kemur það fram í skýrslunni á blaðsíðu 12 að fríverslun EFTA við Indland hefur legið niðri frá fyrri hluta árs 2014. Þá fóru þingkosningar fram í landinu en nú hafa Indverjar lýst sig reiðubúna til að halda þeim áfram. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að maður hefði viljað sjá hlutina ganga hraðar og betur. Ég held að ég hafi tekið það upp á hverjum einasta fundi EFTA frá því að ég hóf þar störf, sem var fyrir nokkuð löngu síðan. Það kemur fram á bls. 13 að fyrir dyrum standi könnunarviðræður sama efnis við Kanada með von um að formlegar viðræður geti hafist sumarið 2016. Samningar ESB við Kanada frá 2014 eru mun víðtækari en samningur Kanada við EFTA-ríkin svo kapp er lagt á uppfærslu til að tryggja samkeppnisstöðu EFTA gagnvart ESB í viðskiptum við Kanada. Síðan er vísað til þess að líka er byrjað að ræða við Mexíkó.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um Japansmálið. Þetta eru gríðarlegir hagsmunir fyrir Ísland og við eigum að gera hvað við getum til að ýta á það og gott ef það er rangt sem maður heyrir, að Japanar hafi ekki áhuga á því að semja við okkur. Ég treysti hv. þingmanni í því. Ég hef margoft hrósað hv. þingmanni fyrir samninginn við Kína en hins vegar er áhugavert, og hv. þingmaður er einlægur í því, að hann vilji berjast fyrir fríverslunarsamningum. Hann gerði það á síðasta kjörtímabili og það hefði fallið um sjálft sig ef ætlun stjórnvalda um að koma okkur í ESB hefði gengið eftir. Ég hvet hv. þingmann að hætta þessu ESB-dekri, þar liggja hagsmunir okkar ekki. Við skulum sameinast um það þar sem við mögulega getum að auka fríverslun Íslands og EFTA-ríkjanna.