145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2015.

462. mál
[12:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hvet hv. þingmann til dáða gagnvart efnahags- og viðskiptanefnd. Ég tel að hann eigi ekki að láta deigan síga og rifja upp að einu sinni reyndi ég á síðasta vorþingi að hvetja hann mjög til þess að klára tillögu gagnvart annarri nefnd, sem mér fannst hann heykjast á en kom síðar fram og varðaði umhverfismál og þann mann kannski sem situr honum í spannarfjarlægð frá.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir, að EFTA er gríðarlega öflugt tæki til að brjóta og ryðja braut fyrir hagsmuni okkar á viðskiptasviði erlendis. EFTA hefur reynst okkur mjög vel. Það er eins og með aðrar stofnanir, að menn þurfa auðvitað alltaf að standa í ístaðinu og hvetja klárinn. Það er mjög mikilvægt. Ísland getur haft mjög mikið frumkvæði innan EFTA, bæði á sviði þingmanna en líka innan ráðherraráðs EFTA. Það skiptir miklu máli. Þetta eru örfá ríki. Ísland á sennilega ekki sæti í nokkurri annarri stjórn eða ráði þar sem það getur haft jafn mikil áhrif. Það var einfaldlega þannig að á síðasta kjörtímabili var fjölmörgum viðskiptasamningum lokið og aðrir hafnir. Sumir þeirra skila ekki endilega miklu í beinan ávinning fyrir Ísland þessi árin en þarna er um að ræða ríki sem metin eru þannig að með framvindu tímans verði þau öflug og geti samanlagt búið til öflugan markað fyrir íslenskan útflutning, eins og t.d. úr landbúnaði, ekki síst, og það skiptir máli. Við gerðum fríverslunarsamning við Flóaríkin, Hong Kong, Kína, Úkraínu, Svartfjallaland, Serbíu. Við fórum af stað við Tæland aftur, settum aðrar viðræður af stað og maður er svolítið undrandi núna þegar hillir undir lok kjörtímabilsins að (Forseti hringir.) maður sér óskaplega lítið gerast undir handarjaðri þeirra sem núna ráða EFTA og þar hlýtur Ísland að skoða sinn hlut.