145. löggjafarþing — 70. fundur,  1. feb. 2016.

sala á hlut ríkisins í Landsbankanum.

[15:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég var eingöngu að vísa til þess að lögum samkvæmt ber mér að kynna tillögu um sölu á hlut í bankanum fyrir ríkinu. Þetta á allt eftir að skýrast. Það er einfaldlega þannig að það á eftir að skýrast.

Þegar sagt er að við þurfum að hafa öðruvísi banka í framtíðinni held ég að margir sem hafa tekið þátt í umræðunni hafi ekki kynnt sér nægilega vel hversu mikið búið er að breyta umhverfi bankanna nú þegar. Sjáum bara til dæmis eiginfjárkröfurnar, sjáum bara til dæmis þær. Þegar Landsbankinn var seldur síðast var hann með 6–7% eigið fé. Hann er með yfir 20% eigið fé í dag, líklega einna best fjármagnaði banki í Evrópu. Þó hef ég sagt að ég telji rétt að taka út úr bankanum talsvert af lausu fé áður en hann yrði seldur, en engu að síður verður eigið fé bankans í kringum 20%.

Þetta eitt og sér, (Forseti hringir.) þótt ekki væri horft til allra hinna atriðanna sem nú þegar er búið að breyta lögum samkvæmt, mun gjörbreyta allri áhættuhegðun þessa banka og annarra banka á Íslandi. Ég bara nefni þetta sem eitt dæmi. Það er rangt sem sagt er, að allt sé eins og áður var.