145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Nýlega kynnti sjávarútvegsráðuneytið nýja aflareglu í loðnu. Í fyrra voru veidd um 230 þús. tonn samkvæmt gömlu reglunni, en hin nýja gerir ráð fyrir um 177 þús. tonnum. Þær fréttir komu flestum talsvert á óvart og hefur m.a. komið fram á fundum atvinnuveganefndar að minnkun í kvóta er áætluð um 2,5 milljarðar fyrir íslenska þjóðarbúið. Þá eru eitthvað um 400 millj. kr. í veiðigjöld sem fara í ríkiskassann.

En rannsóknir eru auðvitað mikilvægar, þær eru algjör forsenda fyrir sjálfbærum veiðum okkar Íslendinga og rannsóknir Hafró og tillögur þeirra eru og eiga að vera forsenda fyrir leyfðum veiðum að mínu mati. En veruleikinn er sá að Hafró hefur verið að draga úr rannsóknarleiðöngrum. Fyrir nokkrum árum voru hérna fjögur rannsóknarskip en þeim hefur fækkað vegna þess að Alþingi veitir allt of lítið fé í málaflokkinn. Mér finnst það vera svo skýrt dæmi um hina landlægu skammsýni í stjórnmálum okkar Íslendinga, því miður, að við erum endalaust að kasta krónunni og spara aurinn. Við eigum að sjá til þess að Hafró, Hafrannsóknastofnun Íslands, fái nægt fé til rannsókna svo þær tillögur sem þeir leggja til um veiðar séu byggðar á réttum og sem mestum gögnum. Á það skortir hér. Um það eru meira að segja vísindamenn sammála og eins þeir sem (Forseti hringir.) veiða. Við þurfum að bæta úr því.


Efnisorð er vísa í ræðuna