145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[15:13]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í því tilviki sem ég þekki best, sem er Vestnorræna ráðið, þá er vinnutungumálið danska. Þegar við komum heim af ársfundum Vestnorræna ráðsins þurfum við að þýða ályktanir af dönsku yfir á íslensku.

Það er enginn hér í þinginu sem hefur sérþekkingu á því verkefni heldur hefur verið reynt að bjarga þessu. Í ár vorum við með tiltölulega viðamiklar tillögur, sem ég mun mæla fyrir hér á eftir, sem er gríðarlega vandasamt að orða. Það þarf að vanda til þýðinga. Ég krafðist þess að fá þýðanda til að gera þetta og fékk nei við því, en eftir japl, jaml og fuður þá varð þetta nú ágætt hjá okkur. Ég þakka Vilborgu Ásu Guðjónsdóttur, ritara Vestnorræna ráðsins, sérstaklega fyrir að standa í öllu þessu stappi með mér.

Þó að við séum ágætar í dönsku þá er leiðinlegt að vera búin að leggja í alla þessa vinnu og koma síðan út með orðalag sem 12 ára barnaskóladanskan mín gerir mér kleift að skrifa niður. Það er eiginlega ekki boðlegt. Ef við ætlum að vera alvöru í þessu þá verðum við líka að stunda fagmennsku. Það er þess sem ég krefst og það er eitt af því sem við svo sannarlega þurfum að ræða við yfirstjórn þingsins.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að við berum ábyrgð sem stýrum þessu alþjóðastarfi hér og eigum að hittast næstu daga, eins og við höfum kannski rætt óformlega um hér á göngunum, og rita erindi til forsætisnefndar. Það tekur stundum langan tíma að ná í gegn breytingum. Við gerum það kannski ekki alveg á næstu vikum en við getum alla vega stigið fyrstu skrefin.