145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

tölvutækt snið þingskjala.

425. mál
[18:14]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um tölvutækt snið þingskjala. Flutningsmenn eru sá sem hér stendur, Helgi Hrafn Gunnarsson, og hv. þingmenn Björn Leví Gunnarsson og Ásta Guðrún Helgadóttir.

Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis í samráði við forsætisnefnd að skipa vinnuhóp sem móti tillögur að innleiðingu þeirra breytinga að þingskjöl sem birta skal í Alþingistíðindum, samanber 90. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, verði gefin út á tölvutæku sniði þannig að lög, kaflar í lögum, lagagreinar, málsgreinar, málsliðir, töluliðir o.s.frv., svo og tilvísanir til reglugerða, laga, úrskurða, dóma og annars þess háttar, verði aðgreinanleg með tölvutækum hætti. Jafnframt verði lagasafnið uppfært með sama hætti.

Vinnuhópurinn verði skipaður þremur fulltrúum, þar af a.m.k. einum löglærðum og einum sérfræðingi á sviði tölvutækni. Forsætisráðuneytið, innanríkisráðuneytið og forsætisnefnd komi sér saman um skipan hópsins. Hópurinn verði skipaður fyrir 1. maí 2016 og kynni forseta Alþingis tillögur sínar fyrir árslok 2016.“

Ég hef velt því fyrir mér í dágóðan tíma hvernig í ósköpunum ég eigi að útskýra þessa tillögu á svokölluðu mannamáli. Ég þori að fullyrða að þetta er sennilega eitt það nördalegasta þingmál sem hefur hér litið dagsins ljós og þótt ég hyggi að tölvumenntaðir eða tölvureyndir menn átti sig á því hvað þetta mál fjallar um og hversu mikilvægt það er, þá er oft meira en að nefna það að útskýra tæknimál þannig að vel fari.

Það má halda því til haga að ýmis gögn um þingmál eru þegar til á tölvutæku sniði. Sem dæmi er hægt að fletta upp með tölvutækum hætti hvaða mál eru á dagskrá, í hvaða nefnd, eða í þingsal, það er hægt að fletta með tölvutækum hætti hver greiddi atkvæði hvernig og í hvaða máli, það er hægt að fletta upp ýmsum svona hlutum. Það er hægt að fletta upp öllum umsögnum sem koma um tiltekin mál með tölvutækum hætti o.s.frv.

Það sem hér er lagt til er að snið þingskjalanna sjálfra þegar þau eru birt með rafrænum hætti, þ.e. á vefsíðu, innihaldi upplýsingar sem tölvur geti notað til að lesa út tiltekin efnisatriði í þingskjölum eins og greinar, málsgreinar, málsliði o.s.frv. Markmiðið er að hægt sé að búa til hugbúnað til þess að auðvelda ekki síst Alþingi vinnu sína en líka að auðvelda almenningi og stofnunum víðs vegar að fylgjast með lagabreytingum og greina betur hugmyndir.

Eins og ég segi þá hef ég velt svolítið fyrir mér hvernig er best að útskýra þetta. Sem dæmi ef maður er í bókhaldi þá er hægt að skrifa tölur með tölustöfum, en ef maður skrifar tölur með orðum sem eru fallbeygð og eru í hinum ýmsu kynjum o.s.frv., þá sér hver maður hversu erfitt er fyrir reiknivél að skilja það. Það þarf miklu meira umfang fyrir tölvur að reyna að beita einhverri dómgreind til að skilja talað mál. Vandinn við þingskjöl þegar kemur að hugbúnaðargerð er að þau gera ráð fyrir mannlegri dómgreind, mannlegri túlkun sem er ekki á færi tölva, alla vega ekki með góðu. Það er náttúrlega til fyrirbærið gervigreind en ég held að það sé ekki góð lausn á þessu vandamáli, enda á það ekki að þurfa.

Það skiptir máli hvernig gögn eru sett fram. Það skiptir máli til að sé hægt að nýta tölvutæknina að þau séu sett fram þannig að þeim sé ætlað að vera meðhöndluð af tölvum.

Dæmi um hugbúnað sem væri hægt að skrifa frekar auðveldlega væri hugbúnaður sem fylgdist með tilteknum lagagreinum. Ef maður vinnur allan daginn með persónugögn t.d. vill maður vita hvenær það kemur fram frumvarp þar sem stungið er upp á breytingu á persónuverndarlögum og þá ætti að vera hægt að fylgjast með því með tölvutækum hætti. Það er enn sem komið er ekki hægt, alla vega ekki nema með mjög háþróaðri gervigreindartækni einhvers konar sem væri miklu dýrari og í raun og veru verri aðferð til þess að leysa þetta vandamál.

Hér er lagt til að skipaður verði hópur til þess að finna út úr því hvernig eigi nákvæmlega að útfæra þetta. Annað dæmi um eitthvað sem ætti að vera hægt að gera er að fletta upp sjálfkrafa öllum tilvísunum í t.d. dóma eða reglugerðir. Ef í lagatexta eða í greinargerð er minnst á einhvern dóm sem varðar málið þá þarf einstaklingur, manneskja, í dag að fletta upp þeim dómi handvirkt. Þetta ferli er ekki næstum því jafn auðvelt og hratt og mögulegt væri ef snið þingskjalanna sjálfra væri tölvutækt.

Sem dæmi: Einfalt hugtak sem manneskja skilur auðveldlega er 3. málsliður 17. gr. laga númer eitthvað frá einhverju ári. Okkur sem vinnum við löggjöf finnst þetta augljóst eða mörgum hverjum í það minnsta. En það er hins vegar allur gangur á því hvernig þetta er sett fram í lagatexta. Stundum er sagt 15. gr. laga númer eitthvað, stundum mundi maður segja 15. gr. í lögum númer eitthvað, stundum 15. gr. í almennum hegningarlögum númer eitthvað. Allt þetta ruglar tölvur. Allt þetta flækir hlutina gríðarlega mikið fyrir tölvur. Það er algjör óþarfi. Það sem þessari tillögu er ætlað að leysa er einmitt það vandamál.

Við leggjum til að þingskjöl séu útskýrð fyrir tölvum þannig að hægt sé að búa til forrit, búa til mjög góðan hugbúnað, sem mundi hjálpa við lagasetningarferlið og hjálpa til við að greina þingmál. Það er kannski skemmst að minnast mikils fjaðrafoks yfir nýsamþykktum náttúruverndarlögum þar sem ákveðins misskilnings gætir víða í samfélaginu um það nákvæmlega hverju hafi verið breytt og á hvaða hátt. Ég ætla ekki að hafa langt mál um það, en það er kannski ekki skrýtið að þegar gerð er breytingartillaga í frumvarpi til breytinga á lögum sem voru samþykkt 2013 en taka gildi í framtíðinni valdi það ruglingi, jafnvel þó að maður skilji lagamál og sé vanur því að garfa í lagamáli. Það gæti jafnvel verið flókið fyrir reynda lögfræðinga. Þetta á ekkert að vera flókið. Það á að vera algjörlega augljóst hverju er breytt, það á að vera algjörlega borðliggjandi hvað er fjallað um. Það verður best gert með hugbúnaði sem getur skilið efnisatriði eins og úrskurði, lög, reglugerðir, málsgreinar, málsliði, töluliði, lagagreinar, lög o.s.frv., á tölvutækan máta.

Það er í sjálfu sér ekki mikið meira sem ég get sagt að þessu sinni til að útskýra málið, held ég, annað en að ég vona innilega að tillagan nái í gegn og sé þá fyrir mér að hægt verði að bæta verulega og auðvelda lagasetningarferlið og sömuleiðis aðkomu almennings að því ferli.

Nú dettur mér í hug annað sem ætti að vera hægt að gera og það er að einhver úti í bæ ætti að geta skrifað frumvarp eða lesið frumvarp án þess að fletta upp í þeim lögum eða þingmálum sem koma við sögu. Sem dæmi ef það kemur fram frumvarp þar sem segir að 3. mgr. 8. gr. einhverra laga falli brott, þá þarf viðkomandi að fletta upp þeim lögum. Það er í raun og veru ekki raunhæft í dag án gervigreindartækni að haga því þannig að einfaldlega sé hægt að setja músina yfir textann eða eitthvað því um líkt til að sjá hvað það er sem verið er að fella brott. Stundum er tilgreint í þingskjali að einu eða öðru orði sé skipt út fyrir eitt eða annað orð í einhverju þingskjali einhvers staðar. Það á að vera augljóst lesandanum og almenningi og lögfræðingum og þingmönnum ekki síst hver áhrif breytinganna eru og hvað er verið að vitna í. Þetta er allt saman mjög auðvelt ef þingskjöl eru gefin út á tölvutæku sniði. Ekkert af þessu er flókið vandamál í sjálfu sér. Vandamálið er bara flókið vegna þess að gögnin eru ekki sett fram með réttum hætti.

Annað dæmi sem margir kannast við sem gæti kannski útskýrt málið er að fá til sín texta sem mynd. Ef maður fær mynd senda á Facebook til dæmis sem er með texta á en sniðið er þannig að í raun og veru er heildarskjalið mynd, er ekki hægt að velja textann, það er ekki hægt að afrita hann og setja í annað skjal nema nota einhvern hugbúnað sem kann að greina letur og sá hugbúnaður er flókinn, getur verið dýr, og hann þarf auðvitað að virka. Það er erfitt þegar kemur að mannlegum hlutum eins og tungumáli og öllu sem varðar merkingu og þýðingu. En það að ekki sé hægt að velja textann eða gera neitt við hann eða skipta honum út ef hann er á formi myndar, er alfarið afleiðing þess hvernig efnið er sett fram. Ef maður fer hins vegar inn á vefsíðu sem dæmi og velur texta þá getur maður afritað hann í annað skjal og það er vegna þess að hann er settur fram sem texti en ekki sem mynd. Framsetning skiptir gríðarlega miklu máli fyrir notagildi upplýsinga. Það er það sem við leggjum til, að notagildi þingskjala verði aukið til muna.

Ég sé fyrir mér að þetta geti tekið einhvern tíma þar sem um talsverða handavinnu er að ræða, en með þessari tillögu er lagt til að greina verkefnið og finna út úr því hvernig best sé að standa að þessu. Ég held að ef þetta næði í gegn mundi það verða til verulegra bóta, jafnvel þótt það geti verið pínulítið erfitt að útskýra fyrir öllum nákvæmlega á hvaða forsendum.

Ég hlakka sérstaklega til að sjá umsagnir um þetta mál í þeirri von að öðrum takist betur að koma þessu á mannamál en þeim sem hér stendur. En að því sögðu þá er þetta mjög sjálfsagt mál sem ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður gæti verið á móti.