145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

niðurstöður greiningar UNICEF á hag barna og viðbrögð stjórnvalda við þeim.

[12:18]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Eitt barn sem líður skort á Íslandi er einu barni of mikið. Ég vil að við Íslendingar setjum markið afar hátt gagnvart börnum og ungmennum þessa lands.

Eitt af því sem er mjög mikilvægt, til að tryggja hag þessa hóps, er að hlusta á raddir barna og unglinga. Eitt af því sem er afar mikilvægt til að börn og ungmenni þekki rétt sinn er að þau fái fræðslu um það sem stendur um málefni þeirra í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þess vegna var mælt hér fyrir þingsályktunartillögu í gær um að 20. nóvember, afmælisdagur barnasáttmálans, yrði helgaður fræðslu um mannréttindi barna og ungmenna ár hvert, til handa þessum hópi. Ég tel afar mikilvægt að sú tillaga verði samþykkt á þessu þingi. Hún var ekki samþykkt á síðasta þingi og fékk ekki framgang.

Þær niðurstöður um skort barna á Íslandi sem UNICEF kynnti fyrir skömmu eru að sjálfsögðu til þess að auðvelda, eða ættu að vera, stjórnvöldum að koma til móts við þau börn sem líða skort hér á landi. Hvað getum við gert? Hvað eigum við að gera? Ég vil færa UNICEF sérstakar þakkir fyrir að standa að þessari skýrslugerð.

Ég legg einnig áherslu á að tölur sem snerta hag barna verði aðgengilegar árlega frá Hagstofu Íslands. Það er ekki gert nú og eftir því sem ég kemst næst þá kostar það tiltölulega lítið að bæta spurningu inn í lífskjararannsókn Hagstofunnar sem snertir hag barna og ungmenna. Ég skora hér með á hæstv. velferðarráðherra og forsætisráðherra, sem er ráðherra Hagstofu, að beita sér fyrir því að þetta verði tekið upp strax.

Ég vil líka beina því til foreldra þessa lands að setja börnin sín ávallt í fyrsta sæti og aldrei gefa nokkurn afslátt í þeim efnum. Börn mega ekki líða efnislegan skort og þau mega heldur ekki líða tilfinningalegan skort og tilfinningalegt ástand barna og ungmenna er nokkuð sem við þurfum að hafa góðar upplýsingar um líka.