145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[15:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar að koma örstutt inn í 1. umr. um frumvarpið áður en það gengur til hv. velferðarnefndar, einkum vegna þess að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra er stödd í salnum. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra, eða ég vona það og óska eftir því að hæstv. ráðherra svari svo spurningum mínum þegar hún lokar umræðunni.

Hvatning mín til að koma hingað upp er einmitt sérstaka umræðan sem við áttum í dag þar sem félags- og húsnæðismálaráðherra tók þátt í umræðunni um skýrslu UNICEF um niðurstöður greiningar á heildarskorti sem börn á Íslandi búa við. Ég heyrði ekki betur en hæstv. ráðherra tæki undir áherslu UNICEF um jafnræði meðal barna og að öll börn skiptu máli.

Aðeins til að rifja upp niðurstöður skortgreiningar UNICEF þá leiðir hún í ljós að 9,1% allra barna á Íslandi liðu skort árið 2014. Það eru rúmlega 6.100 börn og af þeim líða tæp 1.600 verulegan skort.

Í stuttu máli eru niðurstöðurnar þær að mestar líkur séu að barn líði skort á Íslandi ef það er drengur sem á foreldra sem eru yngri en 30 ára og eru einungis með grunnmenntun, í lægsta tekjubili og á leigumarkaði í stærri bæjum landsins. Drengurinn sem er fæddur á Íslandi, er eina barnið á heimilinu og á foreldra í minna en 50% starfshlutfalli.

Fram kemur í niðurstöðunum að það svið þar sem flest börn líða skort er á húsnæðissviðinu og það eru tæplega 9.000 börn sem líða slíkan skort og meira en fjórðungur barna sem eiga foreldra sem vinna hálft starf eða minna býr við skort á sviði húsnæðis. Sú niðurstaða bendir til að öryrkjar séu í þeim foreldrahópi og námsmenn og það sama má segja um atvinnulausa og einstæða foreldra. Mikill munur er á börnum leigjenda og börnum foreldra í eigin húsnæði. Börn leigjenda eru líklegri til þess að líða skort á öllum sviðum. Yfir þetta fórum við í dag í sérstöku umræðunni.

En það sem ég hef áhyggjur af er að ekki sé búið að skoða með skipulögðum hætti hvernig þetta frumvarp hefur áhrif á börn þeirra sem verða fyrir skerðingunum. Í 1. umr. og þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir frumvarpinu komu andsvör og þar var spurt út í þetta, en ég get ekki séð á vefnum að hæstv. ráðherra hafi svarað spurningunum.

Ég vildi bera þær hér aftur upp. Það er spurning hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, með leyfi forseta:

„Þegar taka á tillit til aðstæðna barna, greiðslna sem þau varðar, þá spyr ég til dæmis um einstæða móður með barn á framfæri sem fær skerðingu á grunnframfærslu; að sjálfsögðu er þá verið að skerða heimili þar sem barn er til staðar. Er þá ekki ætlunin að þetta nái til fólks með börn, eða á þetta að ná til barnafjölskyldna fyrir utan einhverja greiðsluflokka?“

Hæstv. ráðherra svaraði ekki þeirri spurningu. Þess vegna ber ég hana upp aftur og ég óska eftir því að ráðherra svari henni hér í lokin.

Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir kom einnig inn á málefni barna í andsvari sínu og hún sagði, með leyfi forseta:

„Var ekki reynt að leggja neitt mat á það eftir þá miklu umræðu og gagnrýni sem frumvarpið fékk í fyrra hvaða áhrif frumvarpið, verði það að lögum, hafi á þiggjendur fjárhagsaðstoðar eða til að mynda börn þeirra?“

Í seinna andsvari sagði hv. þingmaður:

„Var eitthvað gert sérstaklega í því á milli þinga að biðja sveitarfélögin um að fara í gegnum þetta hjá sér, að kalla þær upplýsingar fram til að betur væri hægt að átta sig á þeim hópi, til að mynda hversu mörg börn eru á heimilum sem verða núna fyrir skerðingum? Ég held að rosalega mikilvægt sé að við hér inni áttum okkur á því að auðvitað hefur frumvarp sem þetta, verði það að lögum, áhrif á fjölda barna. Þess vegna er alveg gríðarlega mikilvægt að spá sérstaklega í áhrifin á börnin.“

Í greiningu UNICEF og í skýrslu þeirra og plaggi sem niðurstöður eru teknar saman segir, með leyfi forseta:

„Það á ekki að skipta máli hvernig barn á Íslandi býr, hvar á landinu það á heima eða hverjir eru foreldrar þess. Barnið á að geta gengið að sömu tækifærum vísum og öll önnur börn. Slíkt jafnræði er tryggt bæði í íslensku stjórnarskránni og í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur lögfest.“

Mér finnst þetta vera orð sem við eigum að hlusta á. Auk þess höfum við gengist undir þetta, bæði með stjórnarskrá og með barnasáttmálanum.

Frú forseti. Mér finnst stjórnvöld ekki vera að stíga þessi skref. Mér finnst skrefin sem stigin eru öll vera í þá átt að þrengja að fólki sem stendur höllum fæti. Ég vil leyfa mér að nefna nokkra hluti. Atvinnuleysisbótatímabilið var til dæmis stytt sem þýðir að þeir sem eru atvinnulausir og fá ekki vinnu lenda einhverjir í því að þetta frumvarp, verði það að lögum, eigi við um þá. Skerðing barnabóta er mjög grimm eins og stjórnvöld hafa samþykkt þau og byrjar skerðingin strax við 200 þús. kr. tekjur. Famhaldsskólinn, þar eru fjöldatakmarkanir þannig að þeir sem eru 25 ára og eldri eiga í vandræðum með að komast í bóknám í heimabyggð sinni og húsaleigubætur hafa ekki hækkað á þessu kjörtímabili.

Þetta eru bara nokkur atriði sem hægt er að nefna sem öll saman komin skerða mjög möguleika fólks til að sjá vel fyrir börnum sínum. Nú á að fara í síðasta öryggisnetið sem á að grípa það fólk. Ekki á sem sagt að sjá til þess að möskvastærðin sé þannig að hún grípi alla heldur er verið að grisja netið þannig að einhverjir pompa niður. Það finnst mér ekki góð velferðarpólitík, frú forseti.

Ég spyr því: Hefur frumvarpið verið metið út frá hag barna eins og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir? Og ég bið hæstv. ráðherra að svara því hvað verður um þá, sem verða fyrir skerðingunum, og börn þeirra. Mér finnst þeim spurningum ekki hafa verið svarað nægjanlega. Svörin eru væntanlega til og ég vona að hæstv. ráðherra hafi að minnsta kosti íhugað þau og geti upplýst okkur um hvað verður um börn fólksins sem verður fyrir þessum skerðingum, verði frumvarpið að lögum.