145. löggjafarþing — 76. fundur,  16. feb. 2016.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í Borgunarmálinu er staðan að verða flóknari og flóknari með hverjum deginum sem líður. Stjórnendur Landsbankans hafa orðið margsaga í málinu, en sífellt fleiri spurningar vakna um hlut stjórnenda Borgunar í þessu máli öllu saman og eigenda þess félags. Það er gríðarlega mikilvægt að öllum steinum verði snúið við í málinu, að Bankasýsla ríkisins fái ítarlegar skýringar og að við tökum málið síðan fyrir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Það er augljóst vegna þess að fram undan er mikil sala á ríkiseignum og skiptir máli að ekki verði gerð sömu mistök og við söluna á eignarhlutnum í Borgun. Það er ekki síður mikilvægt til þess að upplýsa um þau siðferðisviðmið og þá samskiptahætti sem tíðkast í efstu lögum í íslensku fjármálakerfi. Það skiptir máli að upplýsa og uppræta.

Fjármálakerfið í heild þarf að fá yfirhalningu. Við þurfum endurmat. Það er fullkomlega ótímabært við núverandi aðstæður að hefja sölu á einstökum hlutum af bönkum í eigu ríkisins. Þvert á móti er ástæða til þess að nýta tækifærið sem við erum nú loksins að fá til þess að raða spilunum upp á nýtt. Okkur gafst ekki færi á því að gera það í kjölfar hruns vegna þess að landið var í efnahagslegri herkví og mikið reið á að tryggja að bankakerfið virkaði yfir höfuð. Núna fáum við tækifæri til þess að raða spilunum upp á nýtt, tryggja samfélagslega ábyrgt bankakerfi og að tryggja að bankakerfið endurspegli þarfir þjóðarinnar, heimila og fyrirtækja, en sjúgi ekki verðmæti af heimilunum og fyrirtækjunum um ókomna tíð.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna